Enski boltinn

Custis vorkennir Rooney hvernig United spilar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rooney þakkar fyrir stuðninginn.
Rooney þakkar fyrir stuðninginn. vísir/getty
Neil Custis, blaðamaður The Sun á Englandi, sagði í samtali við Sundsay Supplement á Sky Sports í morgun að hann vorkenndi Wayne Rooney hvernig Manchester United væri að spila þessa dagana.

„Allir eru að gagnrýna Rooney, en ef þú kíkir hvernig United er að spila þá er Rooney hengdur úti til þerris. Ég vorkenni honum. Boltinn er lengi að koma, spilið er hægt og allir varnir sem eru skipulagðar sjá hvað er að fara gerast,” sagði Custis.

„Á þessum tímapunkti er Rooney að fara út á völlinn og reyna gera allt. Ef þú sérð hvernig Robin van Persie spilar síðustu tvö ár þá er hann ekki að koma til baka og taka þátt í leiknum.”

Sóknarleikur United hefur verið afar máttlaus það sem af er móti. Liðið hefur skorað tvö mörk og annað var sjálfsmark, en hitt markið skoraði Adnan Januzaj gegn Aston Villa.

„Rooney getur spilað sem fremsti maður, en ekki þegar það eru tveir miðverðir á honum og hann fær enga hjálp. Sir Alex spilaði honum úti á kanti, Van Gaal sagði í fyrra að hann væri ekki nægilega öflugur til að vera framherji svo hann spilaði í holunni og á miðjiunni. Núna er honum sagt að vera frammi,” sagði Custis hissa að lokum.

Manchester United er með sjö stig eftir leikina þrjá sem búnir eru. Þeir unnu bæði Tottenham og Aston Villa, en gerðu svo markalaust jafntefli við Newcastle á heimavelli í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×