Enski boltinn

Hughes vill ekki sjá Butland í enska landsliðshópnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Butland bjargaði Stoke nokkrum sinnum gegn nýliðum Norwich um helgina.
Butland bjargaði Stoke nokkrum sinnum gegn nýliðum Norwich um helgina. vísir/getty
Mark Hughes, knattspyrnustjóri Stoke City, hefur ráðið Roy Hodgson frá því að velja markvörðinn Jack Butland í næsta landsliðshóp Englands.

Butland puttabrotnaði á æfingu á föstudaginn en spilaði þrátt fyrir það gegn Norwich á laugardaginn þar sem hann var besti maður vallarins í 1-1 jafntefli.

Hinn 22 ára gamli Butland hefur verið viðloðandi enska landsliðið að undanförnu en Hughes vill síður að hann verði valinn í næsta landsliðshóp vegna puttabrotsins.

„Hann verður að fara varlega. Við tókum stóra ákvörðun þegar við létum hann spila en hann er jákvæður ungur maður og ég hafði engar áhyggjur af honum,“ sagði Hughes sem er á sínu þriðja tímabili sem knattspyrnustjóri Stoke.

„Framundan er landsleikjahlé og það er góður tími fyrir hann til að jafna sig af meiðslunum. Hann verður mjög bólginn næstu vikurnar svo við verðum að nota hann sparlega á æfingum,“ bætti Hughes við.

Butland tók við stöðu aðalmarkvarðar hjá Stoke í sumar eftir að Asmir Begovic var seldur til Englandsmeistara Chelsea. Butland kom til Stoke frá Birmingham City í janúar 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×