Fótbolti

Villas-Boas um kynþáttaníðssöngva: Ekkert verra en í Englandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Villas-Boas stýrði Zenit St. Petersburg til sigurs í rússnesku deildinni á dögunum.
Villas-Boas stýrði Zenit St. Petersburg til sigurs í rússnesku deildinni á dögunum. Vísir/Getty
Andre Villas-Boas, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea og Tottenham, hefur komið rússneska knattspyrnusambandinu til varnar en knattspyrnusambandið hefur verið gagnrýnt fyrir meðferð sína á málum sem kemur að kynþáttaníði.

Nú síðast dæmdi knattspyrnusambandið miðjumanninn Emmanuel Frimpong í tveggja leikja bann fyrir að svara stuðningsmönnum Spartak Moscow sem höfðu sungið kynþáttaníðssöngva í garð hans í leiknum. Sýndi hann þeim löngutöng á móti og fékk hann undir eins rautt spjald hjá dómara leiksins.

Alþjóðaknattspyrnusambandið krafðist svara frá rússneska knattspyrnusambandinu en Spartak Moscow fékk enga refsingu þar sem rússneska knattspyrnusambandinu þótti næg sönnunargögn til staðar.

Er þetta ekki í fyrsta sinn sem rússneskir knattspyrnuaðdáendur eru sakaðir um kynþáttaníð en er það eitt helsta áhyggjuefni alþjóðlegra samtaka fyrir Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fer fram í Rússlandi 2018. Viðurkenndi brasilíski framherjinn Hulk að leikmenn yrðu fyrir barðinu á kynþáttaníðssöngvum oft á tíðum í Rússlandi.

„Vandamálið hér er blásið upp af vestrænum fjölmiðlum, ég heyri og sé ekkert verri hluti hérna en ég heyrði á Englandi svo að mínu mati er þetta ekki stórt vandamál. Þetta er ósanngjörn umræða og verið er að stimpla Rússland sem vandræðaríki vegna pólitískrar hugmyndafræði ríkisins. Heimsmeistaramótið fór fram í Suður-Afríku og Brasilíu, þrátt fyrir að ofbeldi sé vandræði í þessum ríkjum fór mótið afar vel fram og ég hef enga trú á öðru en það gangi allt upp hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×