Fótbolti

Mourinho: Samkeppnin erfið fyrir De Bruyne

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin De Bruyne, leikmaður Wolfsburg.
Kevin De Bruyne, leikmaður Wolfsburg. Vísir/Getty
Jose Mourinho, stjóri Chelsea, segir að hann hefði gjarnan viljað halda Belganum Kevin De Bruyne hjá félaginu á sínum tíma.

De Bruyne er nú orðaður við Manchester City eftir að hafa staðið sig vel með Wolfsburg í þýsku úrvalsdeildinni. Forráðamenn þýska liðsins vilja hins vegar ekki selja hann.

De Bruyne var á mála hjá Chelsea í tvö ár en af þeim tíma var hann í eitt og hálft ár í láni hjá Genk í Belgíu og Werder Bremen í Þýskalandi. Hann komst í byrjunarlið Chelsea í aðeins tveimur deildarleikjum áður en hann var seldur til Wolfsburg í janúar í fyrra.

„Ég er ánægður fyrir hans hönd því þetta er góður drengur,“ sagði Mourinho við enska fjölmiðla. „Ég vildi gjarnan halda honum en hann átti erfitt að takast á við samkeppnina í svona öflugum leikmannahópi.“

„Hann sagði mér að það væri ekki í hans eðli að berjast um sæti í byrjunarliðinu. Hann þarf að vera hjá liði þar sem hann veit að hann mun spila hvern einasta leik.“

„Ég sagði honum að hann væri hjá Chelsea. Hér væri Eden Hazard, Juan Mata, Willian og Andre Schürrle. Það væri ekki hægt að lofa honum föstu sæti í liðinu.“

„Hann sagði mér að hann væri ekki ánægður og það kom í ljós á æfingum. Hann stóð sig ekki mjög vel á þeim.“

Ef De Bruyne fer til City þarf hann að berjast við menn eins og Raheem Sterling, Jesus Navas, David Silva og Samir Nasri um stöðu í byrjunarliðinu.


Tengdar fréttir

De Bruyne verður ekki seldur

Kevin De Bruyne sem hefur verið orðaður við Manchester City í allt sumar er ekki til sölu samkvæmt yfirmanni knattspyrnudeildar Wolfsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×