Fótbolti

Heimir: Öll liðin eiga eftir að tapa stigum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Heimir og Lars þjálfarar Íslands.
Heimir og Lars þjálfarar Íslands. vísir/vilhelm
Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, var borubrattur þegar Vísir heyrði í honum hljóðið eftir að dregið var í riðlakeppni fyrir undankeppni HM 2018 sem fram fer í Rússlandi.

„Þetta er erfiður riðill. Þetta eru allt góðar þjóðir sem eru í pottinum og öll liðin i riðlinum geta unnið hvor aðra," sagði Heimir í samtali við Vísi eftir að ljóst var í hvaða riðli Ísland myndi verða.

„Það er enginn leikur öruggur í riðlinum. Ég held að það sé jákvætt og þetta er ekkert ósvipað eins og fyrir þessa Evrópukeppni. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út þegar maður horfði yfir liðin."

Sjá einnig: Óspennandi riðill bíður Íslands

„Við vitum auðvitað styrkinn á Króötunum og Tyrkjunum. Úkraína og Finnland eru einnig með hörkulið, en góða við það að öll liðin munu tapa stigum. Þetta er bæði jákvætt og neikvætt."

Í riðlinum er ekkert smálið ef svo mætti kallast. Finnland er líklega lakasta liðið í riðlinum, en Heimir er sammála blaðamanni að ekkert lið sé lang slakast í riðlinum.

„Ef við náum upp góðum leikjum ættum við að geta unnið öll liðinn. Við ættum ekki að hræðast nein lið í riðlinum og það eru engin stig sem maður lítur á sem örugg."

Sjá einnig: Twitter logar eftir dráttinn

Ísland tapaði fyrir Króatíu í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu 2014, en tapaði þeim leik eftirminnilega. Heimir segir að það sé ljóst að menn verði vel gíraðir fyrir þann leik.

„Það er klárt. Ég held að það sé öruggt að við verðum með blóð á tönnunum þegar við mætum Króötunum," sagði Heimir.

Ísland er í fimm liða riðil, en ekki sex liða eins og flestir riðlarnir eru. Heimir segir það ekki skipta öllu máli.

„Við fáum þá vonandi góða vináttuleiki. Það er ekki lykilatriði hvort við erum í fimm eða sex liða riðli. Það þýðir auðvitað að við fengum ekki stærstu þjóðirnar með okkur í riðil," sagði Heimir í samtali við heimasíðu KSí.

„Allir þessir leikir verða erfiðir. Ætli svarið sé ekki að þetta hefði alveg getað verið verra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×