Fótbolti

Ensku strákarnir úr leik | Svíþjóð í undanúrslit á kostnað Ítalíu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harry Kane átti ekki gott mót eftir frábært tímabil með Tottenham.
Harry Kane átti ekki gott mót eftir frábært tímabil með Tottenham. vísir/getty
Enska U21 árs landsliðið í fótbolta komst ekki upp úr riðli á Evrópumótinu í Tékklandi, en liðið tapaði lokaleik B-riðils gegn Ítalíu í kvöld, 3-1.

England var 2-0 undir í hálfleik, en það fékk á sig tvö mörk á þriggja mínútna kafla um miðjan hálfleikinn.

Þau skoruðu Andrea Belotti, leikmaður Palermo, og Marco Benassi, leikmaður Torino. Benassi bætti svo við öðru marki sínu og þriðja marki Ítalíu á 72. mínútu.

Nathan Redmond minnkaði muninn, 3-1, fyrir England í uppbótartíma en það var of lítið og of seint.

Vonbrigðin mikil hjá enska liðinu sem mætti með sterkt lið til leiks. Í hópnum var meðal annars Harry Kane, framherji Tottenham. Honum tókst þó ekki að skora á mótinu, en England skoraði aðeins tvö mörk í þremur leikjum.

Þrátt fyrir sigurinn komust Ítalir ekki í undanúrslitin heldur stálu Svíar af þeim sætinu eftir dramatískar lokamínútur gegn Portúgal.

Portúgal komst yfir í leik liðanna, 1-0, með marki á 82. mínútu en tap hefði sent Svíana heim. Simon Tibbling, leikmaður Groningen í Hollandi, var hetja sinna manna þegar hann tryggði Svíum jafntefli með marki á 89. mínútu, 1-1.

Portúgal vann riðilinn með fimm stig og Svíþjóð fer áfram með fjögur stig. Svíþjóð og Ítalía fengu jafnmörg stig en Svíar fara áfram á betri árangri í innbyrðis viðureign liðanna þar sem leikur þeirra í riðlinum fór 2-1 fyrir Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×