Fótbolti

England í undanúrslit í fyrsta sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
England lagði gestgjafa Kanada, 2-1, í 8-liða úrslitum HM kvenna í nótt. Englendingar komust þar með í fyrsta sinn í undanúrslit HM í knattspyrnu.

England vann Noreg í 8-liða úrslitum en það var fyrsti sigur liðsins í útsláttarkeppni HM frá upphafi.

54 þúsund áhorfendur voru á leiknum í Vancouver í nótt, langflestir á bandi heimamanna. En þeir voru slegnir út af laginu þegar England komst í 2-0 forystu strax á fyrstu fimmtán mínútum leiksins.

Heimamenn fóru reyndar illa með gott færi á upphafsmínútum og var svo refsað eftir varnarmistök er Jodie Taylor skoraði á elleftu mínútu leiksins.

Aðeins þremur mínútum síðar komst England aftur á blað. Lucy Bronze skallaði þá fyrirgjöf Fara Williams úr aukaspyrnu í netið.

Katie Chapman skallaði svo í stöng eftir aðra aukaspyrnu Williams stuttu síðar en eftir það sóttu heimamenn í sig veðrið og uppskáru mark þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik. Christine Sinclair skoraði af stuttu færi eftir vel útfærða sókn.

Þrátt fyrir að hafa verið nokkuð með boltann gekk Kanada illa að skapa sér almennileg færi. Englendingar gerðu nóg til að klára leikinn og var sætinu í undanúrslitunum vel fagnað í leikslok.

England mætir heimsmeisturum Japan í undanúrslitum í Edmonton á miðvikudag en Japan vann Ástralíu, 1-0, í sinni viðureign í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×