Fótbolti

Neymar bjargaði Brasilíu í fyrsta leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar fagnar marki sínu í kvöld.
Neymar fagnar marki sínu í kvöld. vísir/getty
Brasilía getur þakkað Barcelona-manninum Neymari fyrir að liðið náði í öll þrjú stigin gegn Perú í fyrsta leik liðsins í Suður-Ameríkuekppninni.

Perú, sem er 56 sætum fyrir neðan Brasilíu á heimslistanum, komst óvænt yfir á þriðju mínútu þegar Christian Cuevas skoraði.

Jefferson, markvörður Botafogo í brasilísku deildinni, var í ruglinu og gaf á Cuevas í teignum sem þakkaði fyrir sig og skoraði.

Neymar var þó ekki lengi að jafna metin fyrir Brasilíu, en aðeins þremur mínútum síðar stangaði hann boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf samherja síns hjá Barcelona, Dani Alves.

Perúmenn voru mjög sáttir við stigið og vörðust af krafti í seinni hálfleik. Þeir virtust líklegir til að hirða stig af Brössunum þar til Neymar tók til sinna ráða á 92. mínútu.

Hann fór þá illa með tvo leikmenn Perú fyrir utan teiginn og gaf frábæra sendingu á Shakhtar-manninn Douglas Costa sem gat ekki annað en skorað einn á móti markverði, 2-1.

Neymar var í miklu stuði með Barcelona á síðustu leiktíð og vann þrennuna með liðinu, en hann virðist mættur til Síle til að vinna Suður-Ameríkukeppnina líka ef marka má frammistöðu hans í kvöld.

Fyrr í dag vann Venesúela óvæntan 2-0 sigur á Kólumbíu í sama riðli.

Byrjunarlið Brasilíu: Jefferson; Dani Alves, Miranda, David Luiz, Felipe Luis; Fernandinho, Elías; Willian, Fred, Neymar; Diego Tardelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×