Lífið

„Það verður pínu erfitt að horfa á þessa seríu“

Tökur á þriðju seríunni af Rétti standa nú yfir og af því tilefni mættu þau Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona, Magnús Jónsson leikari og Baldvin Z, leikstjóri þáttaraðarinnar, í Ísland í dag í kvöld. Fyrri tvær þáttaraðirnar nutu mikilla vinsælda á Stöð 2.

Þriðja þáttaröðin hefst á því að ung stúlka finnst látin á stóra sviði Þjóðleikhússins. Líkt og fyrsta sýnishornið úr þáttunum gefur til kynna, verða þættirnir nokkuð óhugnanlegir.

„Serían er ofboðslega hreinskilin gagnvart því sem við erum að díla við,“ segir Baldvin. „Við erum að fjalla um viðkvæma hluti og þetta er svolítið heitt umræðuefni í dag. Ógn og kúgun á internetinu, hefndarklám og allir þessir hlutir. Það verður alveg pínu erfitt að horfa á þessa seríu á ákveðinn hátt.“

„Ég hafði mjög gaman af því að lesa handritið, meðal annars af því að þetta kallast á við þann veruleika sem við þekkjum í dag,“ segir Steinunn Ólína. „Ég held að þetta sé bara mjög gott hjá honum Badda.“

„Við erum að fara í töluvert ólíkar áttir en í fyrri tveimur þáttaröðunum,“ segir Magnús. „Við erum svolítið að umbylta öllu sem við gerðum áður og það er rosalega gaman að vera í þessu ferli núna.“

Innslagið í Íslandi í dag má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Þáttaröðin nýja, sem framleidd er af Sagafilm og Stöð 2, verður frumsýnd í haust.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×