Enski boltinn

Búið að reka John Carver

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Fréttavefur BBC greinir frá því í dag að John Carver hafi í dag verið rekinn frá Newcastle ásamt þjálfaranum Steve Stone.

Carver stýrði Newcastle í síðust 20 leikjum liðsins á tímabilinu og vann bara þrjá þeirra. Félagið slapp engu að síður naumlega við fall úr ensku úrvalsdeildinni.

Talið er líklegt að Steve McClaren, fyrrum landsliðsþjálfari, verði ráðinn næsti stjóri Newcastle. Talið er að ráðningin verði tilkynnt síðar í vikunni, þegar McClaren snýr aftur úr fríi.

McClaren var rekinn frá Derby eftir tímabilið en liðinu mistókst þá að komast í umspil ensku B-deildarinnar.

Carver vakti helst athygli í vetur fyrir að segjast vera besti knattspyrnustjóri ensku úrvalsdeildarinnar. Hann hafði þá fengið níu stig af 48 mögulegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×