Bíó og sjónvarp

Frumflutt á Vísi: Lag Snorra Helgasonar úr kvikmyndinni Bakk

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Aðalleikararnir og Snorri Helgason.
Aðalleikararnir og Snorri Helgason. mynd/ómar hauksson / vísir/anton
„Við Gunnar höfum þekkst lengi og ég kom inn í þetta verkefni mjög snemma,“ segir tónlistarmaðurinn Snorri Helgason en hann semur tónlistina fyrir kvikmyndina Bakk. Í dag er frumflutt hér á Vísi lagið Bæn sem verður eitt þeirra laga sem mun prýða myndina.

„Ég hef fylgst með ferlinu í um tvö ár. Samið allskonar stef og safnað þeim saman í sarp. Meðan verið var að taka myndina upp höfðu þeir demó frá mér til að vinna með og prófa sig áfram.“

Bakk segir frá tveimur æskuvinum sem ákveða að bakka hringinn í kringum Ísland til styrktar langveikum börnum. Faðir annars þeirra bakkaði hringinn í kringum landið árið 1981 til fjáröflunar fyrir Þroskahjálp og setti heimsmet í leiðinni. Þeir félagar ætla að slá það heimsmet og safna í leiðinni fyrir gott málefni. Hugmyndin hljómar spennandi í byrjun en fljótlega kemur í ljós að hún er ekki jafn góð og hún virtist í byrjun.

Gunnar Hansson semur handritið, leikstýrir og leikur eitt aðalhlutverkanna og Víkingur Kristjánsson og Saga Garðarsdóttir leika aðalhlutverk á móti honum.

„Lagið tengist myndinni að einhverju leiti en samt ekki beint. Það fjallar um einhverskonar örvæntingarfulla bjartsýni sem að vísu er einn þeirra hluta sem hrjáir aðalpersónur myndarinnar,“ segir Snorri.

Bakk verður frumsýnd um land allt 8. maí næstkomandi en hægt er að hlusta á lagið Bæn hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×