Enski boltinn

Advocaat tekur við Sunderland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Dick Advocaat mun stýra Sunderland til loka tímabilsins en það staðfesti hann við hollenska fjölmiðla í kvöld.

Samningurinn gildir til loka tímabilsins en fyrr í dag lét Sunderland Gus Poyet fara eftir slæmt gengi liðsins að undanförnu.

Advocaat verður formlega kynntur til sögunnar sem nýr stjóri á morgun, samkvæmt fréttum hollenskra miðla. „Ég hef alltaf viljað fá tækifæri í ensku úrvalsdeildinni,“ var haft eftir honum.

Enska blaðið The Guardian segir þó að Advocaat sé aðeins hugsaður sem tímabundin lausn í Sunderland og að liðið hafi augastað á Steve McClaren, fyrrum landsliðsþjálfara Englands, til frambúðar.

Advocaat, sem er 67 ára gamall, var síðast landsliðsþjálfari Serbíu en hefur einnig þjálfað landslið Hollands, Belgíu, Rússlands og Suður-Kóreu, sem og AZ Alkmaar og PSV í Hollandi.

Sunderland er einu stigi frá fallsæti eftir 4-0 tap gegn Aston Villa á heimavelli um helgina.


Tengdar fréttir

Poyet rekinn frá Sunderland

Úrúgvæinn látinn taka pokann sinn eftir 4-0 tap gegn Aston Villa í úrvalsdeildinni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×