Enski boltinn

Carragher: Gerrard á að byrja á bekknum á móti United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Vísir/Getty
Jamie Carragher, fyrrum liðsfélagi Steven Gerrard til margra ára hjá Liverpool, telur að knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers eigi ekki að setja Gerrard í byrjunarliðið í leiknum á móti Manchester United um næstu helgi.

Gerrard er að koma til baka eftir meiðsli og kom inná sem varamaður í sigrinum á Swansea City á mánudagkvöldið. Liverpool-liðið hefur hinsvegar spilað mjög vel án fyrirliða síns og er komið fyrir alvöru í baráttuna um Meistaradeildarsæti.

Tölfræðin sýnir það líka svart á hvítu að Liverpool hefur náð í fleiri stig á leiktíðinni þegar Steven Gerrard hefur ekki verið með.

„Liverpool er að spila mjög vel þessa dagana. Þeir hafa spilað vel án Steven," sagði Jamie Carragher við Sky Sports.

„Þegar þú dettur út úr liði og það spilar vel þá er alltaf vandasamt að komast aftur í liðið. Steven veit þetta og gerir sér vel grein fyrir stöðunni," sagði Carragher.

„Þessi leikur á milli Liverpool og United er að mínu mati einskonar úrslitaleikur um fjórða sætið. Ég tel að þau verði aldrei bæði meðal fjögurra efstu. Þetta verður því annaðhvort Liverpool eða United," sagði Carragher um mikilvægi leiks liðanna á Anfield á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×