Enski boltinn

Green, Noble og Young eiga að vera í enska landsliðinu samkvæmt tölfræðinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mark Noble, Ashley Young og Rob Green ættu að vera í liðinu.
Mark Noble, Ashley Young og Rob Green ættu að vera í liðinu. vísir/getty
Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands í fótbolta, velur hópinn fyrir næsta verkefni liðsins í undankeppni EM 2016 á morgun.

Tölfræðisíðan WhoScored.com, sem gefur öllum leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar einkunn eftir hvern einasta leik, hefur birt byrjunarliðið eins og það ætti að vera miðað við tölfræðina.

WhoScored notar sína eigin reikniformúlu þar sem mið er tekið af öllu sem hver leikmaður gerir í hverjum leik. Byrjunarlið síðunnar miðast því við hvaða leikmenn eru að standa sig best.

Rob Green er bestur af ensku markvörðunum en hann er með meðaleinkunnina 6,77. Þar hjálpar til að enginn í deildinni hefur varið fleiri skot en hann eða 108 eða 28 leikjum.

Varnarlína Manchester United, og sérstaklega miðverðirnir, hafa verið gagnrýndir á leiktíðinni en samkvæmt tölfræði WhoScored eru Phil Jones og Chris Smalling bestu ensku miðverðirnir í dag.

Nathaniel Clyne hjá Southampton og Leighton Baines hjá Everton eiga svo að vera bakverðir, en báðir eru með meðaleinkunn yfir sjö. Baine hefur verið í hópnum í nokkur ár en Clyne er talinn framtíðarbakvörður enska landsliðsins.

Það kemur fáum á óvart að leikmenn á borð við Jordan Henderson, Raheem Sterling, Harry Kane og Wayne Rooney eiga að vera í liðinu en Mark Noble er óvænt nafn á blaði.

Noble er með meðaleinkunnina 7,07. Stór hluti af ástæðu þess er, að hann hefur unnið boltann 74 sinnum á miðjunni í aðeins 20 leikjum. Þá býr Noble til 1,6 marktækifæri í leik.

Nánari greiningu á leikmönnunum sem eiga að vera í liðinu samkvæmt tölfræðinni má lesa hér.

Byrjunarliðið samkvæmt tölfræðinni.mynd/sky



Fleiri fréttir

Sjá meira


×