Fótbolti

Sverrir og félagar héldu hreinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sverrir var fyrirliði U-21 árs landsliðsins í undankeppni EM 2015.
Sverrir var fyrirliði U-21 árs landsliðsins í undankeppni EM 2015. vísir/anton
Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn fyrir Lokeren þegar liðið lagði Mouscron-Péruwelz að velli með einu marki gegn engu í belgísku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Mijat Maric, sem spilaði við hlið Sverris í miðri vörn Lokeren, skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 36. mínútu.

Þetta var þriðji leikur Sverris með Lokeren frá því hann gekk í raðir liðsins frá Viking í Noregi. Lokeren hefur aðeins fengið á sig eitt mark í þessum þremur leikjum og náð í sjö stig af níu mögulegum.

Lokeren er í 7. sæti belgísku deildarinnar með 41 stig en liðið er taplaust í síðustu sex deildarleikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×