Enski boltinn

Hjörvar: Þetta er bara væl í Mourinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur farið mikinn í enskum fjölmiðlum eftir jafnteflið við Burnley um helgina.

Nemanja Matic fékk að líta rauða spjaldið í leiknum fyrir að bregðast illa við ljótri tæklingu Ashley Barnes. Mourinho kvartaði undan þeim og fleiri atvikum í leiknum.

Sjá einnig: Chelsea áfrýjar brottvísun Matic

Málið var til umfjöllunar í Messunni í gær með þeim Guðmundi Benediktssyni og Hjörvari Hafliðasyni en gestur þeirra var Gunnleifur Gunnleifsson.

Matic var sótillur eftir tæklingu Ashley Barnes og fékk umsvifalaust rautt spjald.Vísir/Getty
„Mér finnst að þetta sé bara væl í Mourinho. Hann er búinn að væla mikið að undanförnu - alveg frá upphafi þessa árs. Talar um að það sé herferð gegn Chelsea,“ sagði Hjörvar en umræðuna alla má sjá í myndbandinu hér fyrir ofan.

Mourinho var gestur í þættinum Goals on Sunday á Sky Sports á sunnudag þar sem hann ræddi þessi og önnur mál sem snúa að Chelsea ítarlega.

Guðmundur bendir á þá staðreynd að viðtalið við Mourinho hafi ekkert verið auglýst og þeir eru sammála um að stjórinn hafi sjálfur hringt inn og bókað sig í þáttinn.

En Hjörvar sagði að Mourinho hafi áður sagt öðrum knattspyrnustjórum að hætta að kvarta undan grófum tæklingum.

„Þegar John Obi Mikel tók grjótharða tæklingu á leikmann Arsenal bað Mourinho Arsene Wenger um að hætta að væla - þetta væri íþrótt fyrir karlmenn.“

„En núna er hann orðinn mjög viðkvæmur og það má ekkert grast,“ sagði Hjörvar.

Sjá einnig: Matic fékk rautt þegar Chelsea og Burnley skildu jöfn

Gunnleifur tók í svipaðan streng og sagði að vitaskuld væri engin herferð gegn Chelsea hjá dómarastéttinni. „Hverju er hann að reyna að áorka með þessu. Er þetta gott fyrir leikmenn hans eða liðið?“ spyr Gunnleifur.

„Kannski er hann að búa til einingu innan Chelsea sem miðar að því að þeir standi einir saman gegn öllum heiminum,“ segir Hjörvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×