Íslenski boltinn

Blikar fengu bikar í Kórnum | Myndir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ellert Hreinsson kemst framhjá Ólafi Karl Finsen og Atla Jóhannssyni í leiknum.
Ellert Hreinsson kemst framhjá Ólafi Karl Finsen og Atla Jóhannssyni í leiknum. vísir/ernir
Breiðablik hafði betur gegn Stjörnunni í úrslitaleik Fótbolti.net-mótsins og fékk því fyrsta bikar ársins í fótboltanum, en í mótinu spila lið úr efstu tveimur deildum Íslandsmótsins utan Reykjavíkur.

Blikar unnu leikinn, 2-1, með mörkum Arnþórs Ara Atlasonar og Arnór Sveins Aðalsteinssonar, en Veigar Páll Gunnarsson, sem hefur Pepsi-deildina í leikbanni, skoraði fyrir Íslandsmeistarana.

Arnór Ari kom Breiðabliki yfir með skallamarki á 35. mínútu, en á 58. mínútu jafnaði Veigar Páll metin. Hann fylgdi þá eftir skoti Þórhalls Kára Knútssonar sem Gunnleifur Gunnleifsson varði.

Aðeins fimm mínútum síðar féll Kári Ársælsson, miðvörður Breiðabliks, í teignum í baráttunni við Brynjar Gauta Guðjónsson, nýjan liðsmann Stjörnunnar, og Garðar Örn Hinriksson, dómari leiksins, benti umsvifalaust á punktinn.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson, sem bar fyrirliðaband Breiðabliks í leiknum, lét Svein Sigurð Jóhannesson verja frá sér, en hann fylgdi eftir sjálfur og skoraði sigurmarkið.

Stjarnan sótti stíft undir lokin og var gamli maðurinn í markinu, Gunnleifur Gunnleifsson, betri en enginn fyrir Blikaliðið. Hann varði tvö dauðafæri og svo skutu Garðbæingar einnig í stöngina. Þar var að verki Pablo Punyed. Þá var skalli Ólafs Karls Finsen varinn á línu.

Þetta er í þriðja skiptið á fjórum árum sem Breiðablik vinnur Fótbolti.net-mótið, en Stjarnan vann það í fyrra og fylgdi því eftir með Íslandsmeistaratitli.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson skoraði sigurmarkið.vísir/ernir
vísir/ernir
vísir/ernir
vísir/ernir
vísir/ernirFleiri fréttir

Sjá meira


×