Enski boltinn

Courtois frá næstu mánuðina?

Courtois hefur þurft að sækja boltann full oft í netið á þessu tímabili.
Courtois hefur þurft að sækja boltann full oft í netið á þessu tímabili. Vísir/Getty
Daily Mail greinir frá því á vef sínum í dag að belgíski markvörður Chelsea, Thibaut Courtois, verði frá næstu mánuðina eftir að hafa meiðst á hné á æfingu Chelsea á dögunum.

Verður hann ekki með gegn Everton um helgina en samkvæmt heimildum enska miðilsins gæti hann verið frá í allt að tvo mánuði.

Er þetta áfall fyrir Chelsea sem hefur ekki byrjað titilvörnina vel og er allt annað að sjá til liðsins á þessu tímabili. Hefur liðið fengið á sig níu mörk í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins og er liðið aðeins með fjögur stig, átta stigum á eftir Manchester City.

Samkvæmt miðlinum eru lið- og krossböndin á Courtois heil en óvíst er hversu lengi hinn 23 árs gamli Courtois verður frá og óttast er að hann verði frá í tvo mánuði. Mun því bosníski landsliðsmarkvörðurinn Asmir Begovic taka sæti hans í liði Chelsea næstu vikurnar.

Chelsea mætir Everton á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á laugardaginn og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og Stöð 2 Sport 2 HD en flautað verður til leiks 11:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×