Innlent

Hafnfirðingar koma sér upp brandarastíg

garðar örn úlfarsson skrifar
Marín Hrafnsdóttir menningarfulltrúi segir að byrja eigi á tuttugu skiltum með Hafnarfjarðarbröndurum við Strandstíginn og fjölga þeim síðan.
Marín Hrafnsdóttir menningarfulltrúi segir að byrja eigi á tuttugu skiltum með Hafnarfjarðarbröndurum við Strandstíginn og fjölga þeim síðan. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég ligg hér í Hafnarfjarðarbrandarabókunum,“ segir Marín Hrafnsdóttir, menningar- og ferðmálafulltrúi Hafnarfjarðar, sem undirbýr nú að brandarar verði settir ofan í Strandstíginn í bænum.

„Ég hef lengi verið að spá í hvernig við eigum að nýta Hafnarfjarðarbrandarana. Þótt það séu bæir erlendis þar sem er svipað grín uppi á teningnum þá er þetta náttúrlega sérstaða Hafnarfjarðar hér á Íslandi,“ segir Marín.

Ætlunin er að útbúa stensla með tuttugu Hafnarfjarðarbröndurum til að byrja með og setja þá ofan í Strandstíginn milli Norðurbakka og Mýrargötu. „Ég held að það sé skemmtilegt að gera þetta í göngustíginn þannig að maður geti gengið á milli brandara. Það er ofboðslega falleg leið alveg við sjóinn og höfnina,“ segir Marín.

Auk þess að vera á íslensku verða brandararnir á ensku til að þjóna erlendum ferðamönnum sem Marín segir Hafnfirðinga gjarnan vilja sjá meira af. Samkvæmt könnun frá í fyrrasumar hafi 16 prósent erlendra ferðamanna viðdvöl í bænum.

„Það sem hamlar þessum gamla hafnarbæ er að það er engin afþreying í boði tengd sjónum; hvalaskoðun, sjóstangaveiði og eitthvað sem tengist sögu bæjarins og þessari dásamlega fallegu höfn,“ segir menningarfulltrúinn. „Ég held reyndar að Reykjavík vilji líka að sveitarfélögin í kring taki eitthvað af flæðinu. Það er öllum til bóta að dreifa fjöldanum aðeins.“

Þótt Marín grúfi sig nú yfir bækur á borð við 305 Hafnarfjarðarbrandara frá árinu 1982 og Hafnarfjarðarbrandara 1 frá árinu 1993 (annað bindi hefur enn ekki komið út) er ætlunin að fá fleiri að borðinu.

„Okkur langar líka að fá fólk til að senda inn brandara af því að þeir eru alveg örugglega ekki allir í bókunum. Það er heilmikið mál að finna brandara sem eru bráðfyndnir en ekki alltof langir,“ segir Marín.

Ein hugmyndin var að útfæra gamlan Hafnarfjarðarbrandara með merkingu á botni sundlauga bæjarins um að reykingar séu bannaðar. „Við vildum láta reyna á þetta en fyrstu viðbrögð eru að þetta megi ekki. Við ætlum þó ekki að gefast upp. Það má kannski setja þetta í heitu pottana,“ segir Marín bjartsýn.

Þrír Hafnarfjarðarbrandarar frá menningarfulltrúanum:

Þegar Hafnfirðingar fengu nýjan slökkvibíl var efnt til blaðamannafundar.  Einn blaðamaðurinn spurði hvað gert yrði við gamla bílinn. „Tja…ég veit nú ekki," svaraði slökkviliðsstjórinn.  „Ætli hann verði ekki notaður í platútköllin.“

Af hverju læðast Hafnarfirðingar alltaf framhjá apótekum? Til að vekja ekki svefntöflurnar.

Af hverju sitja Hafnfirðingar gjarnan niðri í fjöru á jólunum?  Þeir eru að bíða eftir jólabókaflóðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.