Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og verður því helst minnst fyrir baul tyrknesku stuðningsmannanna fyrir leikinn.
Það var mínútuþögn fyrir alla aðra leiki í gær þar á meðal fyrir leik Englendinga og Frakka á Wembley þar sem fólk minntist þeirra 129 sem fórust í hryðjuverkaárásunum í París.
Meðal áhorfenda á Basaksehir-leikvanginum í Istanbul voru bæði forsætisráðherra Tyrkja, Ahmet Davutoglu, og forsætisráðherra Grikkja, Alexis Tsipras, en þessar nágrannaþjóðir voru þarna að mætast í fyrsta sinn í átta ár.
17 þúsund manns mættu og fylltu völlinn en stað þess að vera með mínútuþögn fyrir leikinn þá ákváðu tyrknesku stuðningsmennirnir frekar að baula (á hryðjuverkamennina) í eina mínútu.
Tyrkir komust á EM upp úr riðli Íslendinga og þeir hafa ekki tapað landsleik á árinu. Liðið vann þrjá síðustu leiki sína í undankeppninni og hafði unnið Katar í vináttulandsleik nokkrum dögum fyrr.
Grikkir hafa aftur á móti sjaldan verið eins langt frá því að komast á stórmót og á EM 2016 því gríska liðið vann aðeins 1 af 10 leikjum sínum í riðlinum og endaði í neðsta sæti. Liðið tapaði meðal annars báðum leikjum sínum á móti Færeyjum.
