Fótbolti

Danir í vandræðum með leikmenn í næsta landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen tæklar hér danska landsliðsmanninn Christian Eriksen.
Sölvi Geir Ottesen tæklar hér danska landsliðsmanninn Christian Eriksen. Vísir/EPA
Viðræður danska knattspyrnusambandsins og dönsku leikmannasamtakanna sigldu í strand í gær og útlitið er ekki gott að samkomulag náist fyrir næstu leiki dönsku landsliðanna.

Danska knattspyrnusambandið vill lækka „launakostnað" landsliðsmanna sinna en leikmennirnir vilja hinsvegar fá meiri pening frá danska sambandinu fyrir að spila fyrir þjóð sína.

Gamli samningurinn rann út í janúar og það ekki útlit fyrir það að samningar náist á næstunni.

Danska sambandið gæti því lent í þeirri stöðu að þurfa að loka á núverandi A-landsliðsmenn í næsta landsleik og nota í þeirra stað aðra leikmenn sem væru tilbúnir að semja um lægri "laun".

„Þetta er mjög skrítin staða. Við höfum aldrei falið fjárhagsvandræði sambandsins og allt í einu erum við komnir í þá stöðu að leikmannasamtökin heimta meiri pening," sagði Jakob Hoyer hjá danska sambandinu.

Leikmannasamtökin segja allt aðra sögðu af gangi mála og telja sig hafa komið með sanngjarnt tilboð að borðinu sem og að þau vilji halda áfram viðræðum í dag.

Danska sambandið vill lækka bónusa og laun landsliðsmanna um sautján prósent. Þá hefur sambandið opinberað áhuga sinn á því að borga leikmönnum mismikið eftir mikilvægi og það taka leikmannasamtökin ekki í mál.

Danir mæta Bandaríkjunum í vináttulandsleik 25. mars og 21 árs landsliðið mætir Portúgal 26. mars.  Samningurinn nær til beggja landsliðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×