Innlent

Grunaður um kynferðisbrot gegn barnabarni: Interpol lýsir eftir manninum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Yves Francois hefur verið eftirlýstur frá því hann lét sig hverfa í mars 2014.
Yves Francois hefur verið eftirlýstur frá því hann lét sig hverfa í mars 2014. vísir
Interpol hefur lýst eftir Yves Francois, haítískum karlmanni á sjötugsaldri, fyrir hönd íslenskra yfirvalda. Francois er grunaður um að hafa brotið gegn barnabarni sínu sem hann kom með hingað til lands í kjölfar jarðskjálftans í Haítí árið 2012. Hann er sagður hafa flúið land í miðri rannsókn á meintum brotum hans. Stundin greinir frá málinu.

Francois kom til Íslands ásamt eiginkonu sinni, dóttur og tveimur barnabörnum. Hann var grunaður um að hafa brotið gegn öðru barnabarninu, sex ára gamalli stúlku. Við komuna framvísaði afinn gögnum þar sem tekið var fram að hann færi með forsjá telpunnar þar sem móðir hennar hefði látist í hamförunum í Haítí.

Grunur lék á að Francois hefði flutt stúlkuna til landsins með fölsuðum skilríkjum og ásakanir voru uppi um að stúlkan væri fórnarlamb mansals, en fallið var frá þeim ásökunum. Hæstiréttur staðfesti svo í janúar 2014 að stúlkan yrði vistuð utan heimilis síns á meðan ásakanir um vanrækslu væru til rannsóknar. Þuríður Halldórsdóttir, lögmaður Francois, sagði í samtali við Vísi að ásakanirnar væru „algjörlega úr lausu lofti gripnar“.

Sjá einnig: Barnsgrátur barst frá íbúðinni á öllum tímum sólarhrings

Francois sagði í samtali við DV í mars á síðasta ári að Barnavernd Reykjavíkur hefði rænt barnabarni hans. „Stelpan er hjartað mitt. Hún er dóttir dóttur minnar sem lést í jarðskjálftanum. Ég var með fullt forræði við komuna til Íslands og alla löglega pappíra því til staðfestingar. Ég hefði aldrei komið með hana hingað ef ég hefði vitað að íslenska ríkið myndi taka hana frá mér,“ sagði hann í viðtalinu.

RÚV greindi svo frá því nokkrum dögum síðar að Francois hefði verið farinn úr landi þegar skýrslutaka yfir honum átti að fara fram. Lögmaður hans hafi óskað eftir því að yfirheyrslum yrði frestað svo hægt væri að útvega frönskumælandi túlk. Þegar því hafi verið komið í kring og skýrslutakan átti að hefjast var enginn afi mættur, enda farinn úr landi.

Kristján Ingi Kristjánsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við Vísi að lýst hafi verið eftir manninum í kjölfarið. Hann hafi því verið á skrá Interpol frá því í mars 2014.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Formaður Félags fósturforeldra tjáði sig um málið.

Tengdar fréttir

Barnsgrátur barst frá íbúðinni á öllum tímum sólarhrings

Fjögur önnur börn eru til heimilis á sama stað og sex ára gömul telpa sem Hæstiréttur úrskurðaði í gær að skyldi dvelja hjá fósturfjölskyldu á meðan alvarlegar ásakanir um vanrækslu eru til rannsóknar. Grunur leikur á að telpan hafi verið fórnarlamb mansals

Grunaður um að misnota barnabarn sitt

Karlmaður frá Haíti, sem kom hingað til lands árið 2012 eftir mannskæðan jarðskjálfta í heimalandi sínu, er grunaður um að hafa beitt sex ára dótturdóttur sína kynferðislegu ofbeldi.

„Algjörlega úr lausu lofti gripið"

„Ég myndi telja að það sé verið að færa íslenskri fósturfjölskyldu barn á silfurfati," segir lögmaður mannsins sem sætir nú athugunar af hálfu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Hún segir afleitt að tala um að umbjóðandi sinn sé grunaður um mansal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×