Innlent

Börn send í fóstur í aðra landshluta

Snærós Sindradóttir skrifar
Dæmi eru um að börn þurfi að skipta um skóla þegar þau fara í fóstur fjarri heimilum sínum.
Dæmi eru um að börn þurfi að skipta um skóla þegar þau fara í fóstur fjarri heimilum sínum. VÍSIR/GVA
Illa gengur að koma börnum með sértækan vanda í fóstur á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins 44 umsóknir bárust Barnaverndarstofu árið 2013 um nýjar skráningar fósturforeldra. Á sama ári bárust 87 beiðnir frá barnaverndarnefndum um að koma börnum í tímabundið eða varanlegt fóstur á svæðinu.

Börn með sértækan vanda þurfa að sækja sér sérfræðiþjónustu til höfuðborgarsvæðisins en þjónustan stendur jafnan ekki til boða á landsbyggðinni.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að ítrekað komi tímabil þar sem ekki gengur nægilega vel að koma börnum á heimili sem eru í stakk búin til að takast á við vanda þeirra. Bragi segir að þetta sé sérstaklega vandamál á höfuðborgarsvæðinu hvað snertir að ráðstafa börnum með fjölþættan vanda, svo sem vegna andlegrar heilsu þeirra, í fóstur.

Bragi Guðbrandsson er forstjóri Barnaverndarstofu
Sum börn hafa svo sértækar þarfir að ekki er mögulegt að uppfylla þarfir þeirra á þeim fósturheimilum sem í boði eru. Þá þurfi jafnvel að grípa til tímabundinnar vistunar á stofnunum. 

„Það eru oft dæmi um það að við getum ekki valið þann stað til búsetu sem við teldum vera ákjósanlegastan, þá er fyrst og fremst átt við höfuðborgarsvæðið vegna aðgengi að sérfræðiþjónustu.“ Dæmi séu um að börnum sé ráðstafað á svæði sem eru einangruð og of langt frá kynforeldrum þeirra „Þegar uppi er staðið er þó ekki verið að ráðstafa börnum gegn þeirra hagsmunum.“

Bragi segist taka eftir því að sérstaklega erfiðum málum barna hafi fjölgað. Þá komi upp sú staða að til of mikils sé ætlast af fósturforeldrum og þolmörk þeirra reynd til hins ítrasta.

Barnaverndarstofa hefur reynt að koma til móts við tilfelli þar sem börn með of mikinn vanda eru vistuð á heimilum sem ekki eru fyllilega í stakk búin til að sinna þörfum þeirra með auknum fjárgreiðslum til fósturforeldra. Barnaverndarnefnd hvers sveitarfélags sér jafnan um að greiða fósturforeldrum fyrir hvert barn sem er í fóstri hjá þeim. Dæmi eru um að fósturforeldrar hafi fleiri en eitt barn á heimili sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×