Báðar fylkingar í Skotlandi gera nú úrslitatilraun til þess að sannfæra kjósendur um að greiða atkvæði annað hvort með eða á móti spurningunni um hvort Skotland eigi að verða sjálfstætt ríki. Kjörstaðir opna á morgun og kannanir gefa til kynna að hnífjafnt sé á munum þótt örlítið halli á sjálfstæðissina.
Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar hvetur nú landa sína til þess að mæta á kjörstað og segja já við sjálfstæði Skota en talsmenn þess að Skotar verði áfram í sambandi við Bretland hafa einnig verið úti á örkinni.
Þrjár nýjar kannanir voru gerðar opinberar í gærkvöldi og þær sýna að andstæðingar sjálfstæðis mælast með 52 prósenta fylgi á meðan já menn fá 48 prósent. Þá er búið að útiloka þá sem enn hafa ekki tekið afstöðu og því munu þau atkvæði skipta gríðarlega miklu máli á morgun.
Spennan eykst í Skotlandi
