Ungliðahreyfing Vinstri grænna mun bjóða upp á fyrirlestra fyrir framhaldsskólanemendur vegna kennaraverkfallsins sem er nú hafið.
Meðal þess sem nemendur verða fræddir um eru umhverfismál, feminismi og mannréttindi.
Fyrirlestrarnir verða klukkan 13 alla virka daga á meðan verkfall stendur yfir. Í fréttatilkynningu frá Vinstri grænum kemur fram að tilgangurinn sé að vekja áhuga framhaldsskólanema á stjórnmálum og veita þeim sem hafa áhuga vettvang til þess að ræða stjórnmál.
Í þessari viku verða eftirfarandi fyrirlestrar haldnir klukkan 13, að Suðurgötu 3:
Mánudagur 17. mars – Af hverju er verkfall?
Þriðjudagur 18. mars – Innri friður, ytri friður
Miðvikudagur 19. mars – Umhverfið og þú
Fimmtudagur 20. mars – Ungt fólk og þátttaka
Föstudagur 21. mars – Feminismi og mannréttindi

