Innlent

Bílastæðagjöld hækkuð fyrir mistök

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Til greina kemur að endurskoða hækkun á gjaldskrá Bílastæðasjóðs sem kom til framkvæmda um áramót.
Til greina kemur að endurskoða hækkun á gjaldskrá Bílastæðasjóðs sem kom til framkvæmda um áramót. mynd/365
Til greina kemur að endurskoða hækkun á gjaldskrá Bílastæðasjóðs sem kom til framkvæmda um áramót. Svo virðist sem hækkunin hafi farið í gegn fyrir mistök.

Samkvæmt upplýsingum frá Karli Sigurðssyni, borgarfulltrúa og formanni bílastæðanefndar Bílastæðasjóðs, var gjaldskrárhækkunin ákveðin í september síðastliðnum.

Borgarráð ákvað hins vegar um miðjan nóvember að hætta við áformaðar hækkanir á gjaldskrám í öllum þjónustuflokkum borgarinnar. Með því vildi borgin taka frumkvæði í að farin yrði ný leið í komandi kjarasamningum með því að sporna við verðbólgu og auka kaupmátt.

Þegar ákveðið var að hætta við áformaðar hækkanir gleymdist að ræða hækkanir á gjaldskrá Bílastæðasjóðs að sögn Karls.

„Okkur sást yfir að taka þessa hækkun með í þann pakka og ég tek á mig ábyrgðina á því sem formaður bílastæðanefndarsjóðsins. Þetta þurfum við að fara betur yfir í nefndinni,“ segir Karl.

„Mér sást það hreinlega yfir að þetta gæti verið ein af þeim hækkunum sem ætti að taka með í pakkann sem um var rætt að afturkalla. Það gerist svo margt á stuttum tíma í þessu að maður man kannski ekki alveg allt sem hefur verið ákveðið í september þegar maður er að vinna fjárhagsáætlun í desember,“ segir Karl.

Hann segir þó löngu tímabært að hækka gjaldskrána. Skammtímagjaldið hafi staðið í stað síðan árið 2000 og hafi ekki fylgt verðlagi á þessum 14 árum. Á meðan hafi allt annað hækkað, þar með talinn kostnaður við viðhald og rekstur stæðanna.

Aðspurður hvort til greina komi, í ljósi mistakanna, að endurskoða gjaldskrárhækkunina segir Karl að það þurfi að ræða sérstaklega.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.