Lífið

Rödd hreyfihamlaðra fái að njóta sín

Komið til að vera Rannveig vonar að þetta verkefni sé komið til að vera. Fréttablaðið/ernir
Komið til að vera Rannveig vonar að þetta verkefni sé komið til að vera. Fréttablaðið/ernir
Í haust fór Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar af stað með jafningjafræðslu fyrir hreyfihamlaða í formi fyrirlestra á netinu. „Við fórum af stað með þetta verkefni þar sem frá upphafi hefur það verið markmið Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar að standa fyrir öflugri fræðslustarfsemi og jafningjafræðslu, ásamt því að efla þekkingu á málefnum hreyfihamlaðs fólks og vinna að hugarfarsbreytingu í samfélaginu,“ segir Rannveig Bjarnadóttir forstöðumaður Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar, en verkefni sem þetta hafði verið í undirbúningi í talsverðan tíma. „Við vorum búin að velta fyrir okkur í hvaða formi væri best að hafa þetta til þess að geta náð til sem flestra og þá líka þeirra sem búa úti á landi líka og í framhaldinu kom þessi hugmynd að birta fyrirlestrana á netinu“ segir Rannveig, en nemendur Kvikmyndaskóla Íslands hafa lagt fram aðstoð sína við að taka upp fyrirlestrana. „Okkur fannst mikilvægt að gefa einstaklingum færi á að deila sinni persónulegri reynslu og gefa góð ráð um ýmis málefni sem snerta alla á einhvern hátt“ segir Rannveig, en fyrirlesararnir eru ekki fagfólk, heldur hreyfihamlaðir einstaklingar sem segja sína sögu. „Með því að hafa fyrirlestrana á netinu eru þeir aðgengilegir öllum óháð búsetu, en þetta er líka okkar leið til þess að ná til þeirra sem ættu annars erfitt með að koma á fyrirlestur hjá okkur,“ segir hún. Fyrirkomulag sem þetta er nýtt og veit Rannveig ekki til þess að slíkt hafi verið gert hér áður. „Við erum búin að gera tvo fyrirlestra sem hafa fengið gríðarlega góðar viðtökur, og búið er að taka upp tvo til viðbótar. Þetta er verkefni sem er komið til að vera og vonandi getum við haldið áfram að setja inn fyrirlestra,“ segir Rannveig. Fyrirlestrarnir eru aðgengilegir öllum inni á síðu Þekkingarmiðstöðvar www.thekkingarmidstod.is. adda@frettabladid.isFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.