Enski boltinn

Marriner: Hef farið yfir rauða spjaldið aftur og aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Andre Marriner, dómari í ensku úrvalsdeildinni, hefur átt erfiða viku eftir að hann gaf röngum manni rautt spjald í leik Chelsea og Arsenal um síðustu helgi.

Marriner rak Kieran Gibbs af velli eftir að Alex Oxlade-Chamberlain hafði handleikið knöttinn. Hvorugur þarf þó að taka út leik bann og enska sambandið ákvað einnig að Marriner fengi að dæma leik í deildinni nú um helgina.

Dómarinn segir í samtali við The Telegraph í dag að málið hafi valdið honum miklu hugarangri í vikunni. „Það er oft sagt að dómarar taki ákvarðanir, fari svo heim og sé alveg sama,“ sagði Marriner í viðtalinu. „Það er fjarri sannleikanum.“

„Maður er sífellt að fara yfir atvikið, aftur og aftur. Maður hugsa um hvernig maður hefði getað tekið rétta ákvörðun og hvað ég hefði átt að gera öðruvísi.“

„Maður reynir eins og maður getur að komast að niðurstöðu en stundum er jafngott að setja atvikið til hliðar því það átti sér stað á 15. mínútu leiksins. En eftir leikinn greindi ég þetta niður í öreindir.“

Marriner segist þakklátur öðrum dómurum sem hafi sýnt honum stuðning. „Ég hef líka fengið nokkrar stríðnispillur frá þeim og það hjálpaði mér að brosa á ný. Vonandi er ég kominn aftur með „mojo-ið“ mitt.“


Tengdar fréttir

Marriner fær leik um næstu helgi

Dómarinn Andre Marriner gerði sér lítið fyrir um síðustu helgi og rak vitlausan mann af velli í leik Chelsea og Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×