Fótbolti

Hiddink: Ég tek við hollenska landsliðinu eftir HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guus Hiddink gerði Chelsea að enskum bikarmeisturum árið 2009.
Guus Hiddink gerði Chelsea að enskum bikarmeisturum árið 2009. Vísir/Getty
Guus Hiddink hefur staðfest það að hann taki við hollenska fótboltalandsliðinu eftir HM í Brasilíu í sumar en Louis van Gaal hætti með liðið eftir keppnina.

Hollendingar eru einmitt með íslenska landsliðinu í riðli í undankeppni EM í Frakklandi sem fer af stað næsta haust. Ísland mætir Hollandi á Laugardalsvellinum 13. október næstkomandi en það verður þá þriðji leikur þjóðanna í riðlinum.

„Ég tek við hollenska landsliðinu eftir HM. Þetta verður frábært lið," sagði Guus Hiddink í sjónvarpsviðtali í Hollandi.

Hiddink er að setja saman þjálfaralið en kappar eins og Jaap Stam, Ruud van Nistelrooy og Giovanni van Bronckhorst þykja allir koma til greina.

Guus Hiddink stýrði hollenska landsliðinu á árunum 1994 til 1998 og fór með liðið alla leið í undanúrslitin á HM í Frakklandi 1998. Hann hefur síðan stýrt liðum eins og Real Madrid og Chelsea auk þess að þjálfa landslið Suður-Kóreu, Ástralíu, Rússlands og Tyrklands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×