Erlent

Beðið í ofvæni eftir því hvort lending á halastjörnunni takist

Halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko í Kópavogi. Ef vel er að gáð má sjá Perluna til samanburðar undir halastjörnunni.
Halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko í Kópavogi. Ef vel er að gáð má sjá Perluna til samanburðar undir halastjörnunni. Mynd/Hermann Hafsteinsson/Stjörnufræðivefurinn/ESA
Áhugamenn um geimvísindi og stjörnufræði bíða nú með öndina í hálsinum en könnunarfarið Philae var í morgun sleppt frá gervitunglinu Rósetta og er ætlunin að lenda á halastjörnu. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er reynt og ef vel gengur er von á miklum nýjum upplýsingum um eðli slíkra fyrirbæra, sem halastjörnur eru.

Bein útsending verður frá lendingunni á Vísi.

Sævar Helgi Bragason áhugamaður um stjörnufræði er einn fjölmargra sem fylgjast spenntir með. „Nú er komið að hápunktinum í þessum tíu ára leiðangri Rosetta til halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko og það er lending á halastjörnu, segir Sævar Helgi. Nú er könnunarfarið að falla frá Rosetta og að yfirborði halastjörnunar.

Sævar Helgi Bragason, áhugamaður um stjörnufræði.
„Sú ferð tekur um sjö klukkustundir og er í rauninni bara frjálst fall. Upp úr klukkan fjögur í dag skellur Philae á yfirborðinu og hlekkjar sig þar fast. Síðan byrjar farið vonandi að taka myndir af yfirborðinu og senda þær til baka.“

Sævar segir þó alls óvíst hvort þetta takist allt saman. Hann segir að það kæmi honum og fleiri á óvart ef þetta tekst. Geimfarið getur ekki stjórnað ferð sinni niður að yfirborðinu og því ekki víst á hverju það lendir. Það gæti því til dæmis oltið á hliðina. Ef farinu tekst heldur ekki að hlekkja sig við halastjörnuna mun það líklega skoppa af yfirborðinu og út í geim á ný.

Sævar segir að ferðin öll sé þó ekki unnin fyrir gýg. Mikið magn upplýsinga hafi safnast saman á leiðinni og þá komi margt í ljós í sjálfri niðurferðinni. „Við fáum þá einhverjar upplýsingar en ekki þær mikilvægustu, sem eru til dæmis að taka sýni úr innviðum halastjörnunnar og svo framvegis.“

Það kemur því í ljós um klukkan fjögur síðdegis, hvort þessi tíu ára leiðangur mun takast eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×