Erlent

Stóra-Bretland heldur velli - Skotar segja nei

Tryggvi Ólafsson skrifar
Sambandssinnar fagna úrslitum kosninganna í Glasgow í nótt.
Sambandssinnar fagna úrslitum kosninganna í Glasgow í nótt. vísir/ap

Sambandssinnar báru sigur úr býtum í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Skotlands frá Stóra-Bretlandi og því ljóst að 307 ára ríkjasamband Skotlands og Englands heldur velli.

Eftir talningu atkvæða í öllum kjördæmunum 32 hlutu sambandssinnar rúm 55% atkvæða.

Sjálfstæðissinnar unnu sigur í fjórum kjördæmum, þar á meðal í stærstu borginni Glasgow, þar sem Já-hreyfingin fékk rúm 57% atkvæða. Sambandssinnar náðu meirihluta í öðrum kjördæmum og unnu stórsigur í höfuðborginni Edinborg.

Metþátttaka var í kosningunum. Á kjörskrá voru rúmar fjórar milljónir manna og var kjörsókn um 84%. Atkvæðisrétt höfðu allir íbúar Skotlands, 16 ára og eldri.

Alex Salmond, leiðtogi sjálfstæðissinna, notaði Twitter til að þakka Glasgow veittan stuðning:

David Cameron hélt ávarp eftir að úrslit kosninganna voru ljós. vísir/ap

Sambandssinnar höfðu mikla forystu í könnunum allt fram að lokasprettinum þegar heldur dró saman með fylkingunum og sýndu nokkrar kannanir á tímabili fram á nauman sigur sjálfstæðissinna.

Báðar hópar ráku öfluga kosningabaráttu allt fram á síðustu stundu en óvissa um ýmis efnahagsmál, ekki síst gjaldmiðilsmál, eru talin hafa átt ríkan þátt í sigri Nei-sinna.

Í ávarpi eftir að úrslitin voru ljós sagði David Cameron að Skotar þyrftu nú að slíðra sverðin og horfa saman fram á veginn.

Heimir Már Pétursson, fréttamaður Stöðvar 2, og Björn Sigurðsson tökumaður eru staddir  í Skotlandi og tóku kjósendur tali á kjördag og kynntust báðum hliðum á þessu mikla hitamáli.

Sundurliðuð úrslit kosninganna í Skotlandi má finna hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.