Innlent

Hefur ekki komið í bústaðinn í tvö ár

Hjörtur Hjartarson skrifar
Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segist ekki hafa dvalið í sumarbústað fyrirtækisins við Þingvallavatn undanfarin tvö ár en bústaðurinn er honum einum ætlaður. Engu að síður vill stjórn fyrirtækisins ekki selja bústaðinn þrátt fyrir að flest allt sem ekki tengist kjarnastarfsemi Orkuveitunnar sé falt.

Á einstaklega fallegum stað við Þingvallavatn stendur forstjórabústaður Orkuveitunnar og bátaskýli einnig. Upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar segir að bústaðurinn hafi lítið sem ekkert verið notaður undanfarin ár vegna þess hversu slæmu ástandi hann er í. Fréttastofa Stöðvar 2 skoðaði bústaðinn í dag.

Einkavegur liggur að bústaðnum, afmarkaður með verklegu hliði. Sjálfur bústaðurinn var reistur 1946 en hefur greinilega verið mikið endurnýjaður. Viðarklæðningin er tiltölulega nýleg að sjá og innbúið sömuleiðis. Leðursófasett og arin þar á meðal. Í fallegri víkinni er einnig bátaskýli sem var byggt 1998. Inni í því eru viðarhraðbátur og lítill árabátur.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur sagði í samtali við fréttastofu í dag ekki hafa komið í bústaðinn í um tvö ár. Hann sagðist ekki hafa upplýsingar um hvort eða hverjir hafi notað hann á þessum tíma. Nýtt gasgrill er á veröndinni og því ljóst að einhverjar mannaferðir hafa verið við bústaðinn í fjarveru forstjórans.

Almennir starfsmenn hafa ekki aðgang að bústaðnum

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar sagði í viðtali við Fréttablaðið að bústaðurinn hafi lítið verið notaður undanfarin áratug eða svo vegna ástand þess. Nýverið hafi þó verið ákveðið að gera það múshelt með því að endurbæta klæðninguna að utan.

Á sama tíma og Orkuveita Reykjavíkur selur eignir sem ekki tengjast kjarnastarfsemi fyrirtækisins er sumarhús við Þingvallavatn sem ætlað er forstjóranum en er ónotað, ekki sett á sölulista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×