Enski boltinn

Arsenal fór létt með Man. City

Santi Cazorla skorar fyrir Arsenal.
Santi Cazorla skorar fyrir Arsenal. vísir/getty
Bikarmeistarar Arsenal unnu öruggan sigur á Englandsmeisturum Manchester City, 3-0, í árlegum leik meistaranna um Samfélagsskjöldinn á Englandi.

Arsenal var miklu betri aðilinn nær allan leikinn og tók forystuna á 21. mínútu með marki Spánverjans Santi Cazorla sem skoraði með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig.

Aaron Ramsey, sem var frábær fyrir Arsenal fyrri hluta tímabils í fyrra, bætti við öðru marki Arsenal á 42. mínútu með fallegu skoti úr teignum eftir að hafa fíflað varnarmenn meistaranna.

Franski framherjinn Oliver Giroud kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og innsiglaði sigur Arsenal með glæsilegu marki á 60. mínútu, en skot hans fyrir utan teig fór í boga yfir Willy Caballero í marki Manchester City, 3-0.

Eftir að hafa ekki unnið titil í níu ár er Arsenal nú búið að vinna bikarinn og Samfélagsskjöldinn með þriggja mánaða millibili, en Arsenal-liðið leit vel út í leiknum í dag.

Man. City 0 - 3 Arsenal

15.52 Leik lokið!

15.45
Leikurinn að fjara út. Rólegt yfir báðum liðum sem bíða eftir að dómarinn flauti til leiksloka.

15.36
Tólf mínútur eftir af venjulegum leiktíma. City-menn sækja meira en skapa sér ekki neitt. Arsenal miklu betra í dag.

15.30
Fernando reynir laust skot fyrir utan teig sem fer af varnarmanni og í horn. Szczesny grípur boltann auðveldlega.

15.25
Flamini kemur inn á hjá Arsenal fyrir Jack Wilshere. Stefnir svo sannarlega í annan bikar, eða skjöld, hjá Wenger og lærisveinum á nokkrum mánuðum.

15.18 MARK!!! Arsenal skorar, 0-3.
Skytturnar eru að ganga frá Englandsmeisturunum. Frakkinn Oliver Giroud, sem kom inn á sem varamaður, skorar með skoti fyrir utan teig sem fer yfir Caballero í markinu á 60. mínútu.

15.10
Stevan Jovetic kemst í dauðafæri fyrir Manchester City upp við markstöngina vinstra megin hjá Arsenal, en í hinum teignum vill Arsenal fá víti þegar Vincent Kompany virðist fá boltann í hendina.

15.01
Seinni hálfleikur er hafinn.

14.45 Hálfleikur

14.42 MARK!!!
Arsenal skorar, 0-2. Walesverjinn Aaron Ramsey er búinn að finna markaskóna á ný. Hann skorar með fallegi skoti úr teignum eftir góða sókn Arsenal.

14.27
Arsenal lítur vel út. Sanogo er hársbreidd frá því að bæta við öðru marki, en skot hans fer rétt framhjá markinu. Varnarleikurinn er traustur hjá þeim rauðu og yfirvegun yfir spilinu.

14.21 MARK!!!
Arsenal skorar, 0-1. Spánverjinn Santi Cazorla býr sér til skotpláss fyrir utan teig með fallegri hreyfingu og smyr boltann í fjærhornið. Fallegt mark.

14.19
Arsenal-menn eru mun betri og sækja stíft að marki City. Skapa sér þó lítið af færum.

14.14
Samir Nasri með skot í teignum sem virðist fara í hönd Debuchy, en vítaspyrna hefði verið strangur dómur.

14.08
Nýi maðurinn Mathieu Debuchy með snyrtilega fyrirgjöf frá hægri sem skölluð er frá áður en Sanogo kemst í boltann.

14.06
Þetta byrjar nokkuð rólega. Hvorugt liðið fengið færi, en Arsenal á nokkuð hættulega sókn sem City-menn stöðva.

14.00
Leikurinn er hafinn.



13.52
Liðin eru mætt út á gras og rífa í spaðann á einhverjum herramönnum. Þjóðsöngurinn er spilaður. Allt er að verða klárt.

13.42
Alexis Sánchez er í byrjunarliði Arsenal í dag, en hann kostaði félagið 30 milljónir punda. Þá ver Willy Caballero mark City en hann kom til liðsins frá Málaga á Spáni.

13.40
Velkomin. Hér verður fylgst með leik Manchester City og Arsenal í leiknum um Samfélagsskjöldinn.

Arsenal: Szczesny, Debuchy, Koscielny, Chambers, Gibbs, Arteta, Wilshere, Ramsey, Alexis Sánchez, Cazorla, Sanogo

Varamenn: Martinez, Monreal, Flamini, Campbell, Rosicky, Oxlade-Chamberlain, Giroud.

Man City: Caballero, Clichy, Boyata, Nastasic, Kolarov, Navas, Fernando, Toure, Nasri, Jovetic, Dzeko.

Varamenn: Hart, Richards, Rekik, Milner, Sinclair, Silva, Zuculini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×