Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Valur - Víkingur 1-2 | Annar sigur Víkinga í röð

Ingvi Þór Sæmundsson á Vodafone-vellinum skrifar
Víkingar fagna.
Víkingar fagna. Vísir/Stefán
Víkingar fögnuðu sínum öðrum sigri í röð þegar þeir báru sigurorð af Val á útivelli með tveimur mörkum gegn einu.

Leikurinn á Vodafone-vellinum í kvöld staðfesti það sem flestir vissu: að Aron Elís Þrándarson er frábær í fótbolta - leikmaður sem skilur á milli í jöfnum leikjum eins og þessum.

Hann er ofsboðslega klár í að finna sér pláss milli varnar og miðju mótherjanna, á mjög auðvelt með að fara framhjá varnarmönnum og það er mikil skotógn af honum. Aron er mjög beittur sóknarleikmaður og ef hann sleppur við meiðslin sem hafa plagað hann síðustu ár getur hann náð virkilega langt.

Leikurinn var ágætlega spilaður og bæði liðin héldu boltanum vel. Það dró til tíðinda á 28. mínútu þegar Iain Williamson kom Val yfir með skoti úr vítateignum eftir innkast Sigurðar Egils Lárussonar og skalla Hauks Páls Sigurðssonar.

En aðeins mínútu seinna jafnaði Aron Elís leikinn með góðu skoti rétt fyrir utan vítateig eftir að hafa leikið laglega á Williamson.

Það gerðist fátt næstu mínúturnar og stöðubaráttan var ríkjandi. En á lokamínútu fyrri hálfleiks var Aron Elís nálægt að endurtaka leikinn frá því í jöfnunarmarkinu. Hann lék þá á Hauk Pál og Bjarna Ólaf Eiríksson, sem lék sem miðvörður í kvöld, en skaut framhjá markinu frá vítapunkti. Staðan í hálfleik var 1-1.

Seinni hálfleikurinn var rólegur í meira lagi. Valsmenn náðu að loka betur á Aron Elís og voru heldur sterkari aðilinn án þess þó að skapa sér mörg opin færi.

Haukur Páll komst næst því skora fyrir Valsmenn; fyrst þegar hann átti bakfallsspyrnu beint á Ingvar Þór Kale og svo þegar hann átti af fjærstönginni sem Ingvar varði vel.

Aron Elís hafði, sem áður sagði, haft hægt um sig í seinni hálfleik en þegar sjö mínútur voru til leiksloka lét hann aftur til sín taka.

Hann átti þá frábæran sprett, komst upp að endamörkum vinstra megin í vítateignum, sendi boltann fyrir og eftir klafs fór boltinn af varamanninum Henry Monaghan og í netið.

Valsmenn bættu í sóknina eftir markið og Ingvar þurfti að taka á honum stóra sínum þegar hann varði skalla Hauks Páls frábærlega.

Heimamenn skildu hins vegar mikið pláss eftir aftarlega á vellinum á lokamínútunum og Aron Elís komst í tvígang nálægt því að skora, en Fjalar Þorgeirsson, markvörður Vals, sá við honum.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Víkingar fögnuðu góðum sigri sem þeir unnu svo sannarlega fyrir. Liðsheildin var sterk og þeirra lykilmenn, Aron Elís, Ingvar, Igor Taskovic og Alan Löwing, áttu allir afbragðs leik.

Valsmenn hljóta að vera fúlir með niðurstöðuna, enda getur það varla talist ásættanlegt fyrir lið sem ætlar sér a.m.k. að komast í Evrópukeppni að tapa á heimavelli fyrir nýliðum.

Markaskorarinn Williamson átti góðan fyrri hálfleik en það dró af honum eftir því sem á leikinn leið. Þá átti Bjarni Ólafur flottan leik í miðvarðarstöðunni.

Víkingar eru nú í 5. sæti með 13 stig, einu stigi meira en Valur sem situr í sætinu fyrir neðan.

Magnús: Vantaði þetta extra

"Þetta er grátleg niðurstaða. Við erum, að mér finnst, búnir að vera á fínu róli í þessu móti, en við höfum ekki komist á almennilegt skrið," sagði Magnús Gylfason, þjálfari Vals eftir tapið gegn Víkingi í kvöld.

"Það var grátlegt að tapa hérna á heimavelli í nokkuð jöfnum leik, þar sem við höfðum kannski yfirhöndina, en það vantaði eitthvað upp á," sagði Magnús en honum fannst vanta smá meiri kraft í leik sinna manna.

"Við komum ákveðnari út í seinni hálfleikinn fannst mér og við sköpuðum okkur 2-3 hálffæri, en það vantaði þetta extra, þetta mark til að komast yfir.

"Það var líka klaufalegt hjá okkur að fá strax á sig mark eftir að hafa komist yfir í fyrri hálfleik. Það var niðurdrepandi að fá á sig mark nánast á sömu mínútunni.

"Mér fannst Víkingar ekki vera að valda okkur neinum stórvægilegum vandræðum en meðan staðan er 1-1 er stórhættulegt að fara með of marga menn fram í sóknina og við fengum að kenna á því í dag," sagði Magnús að lokum.

Ólafur: Höfum oft spilað betur

Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkinga, kvaðst stoltur af sínum mönnum í kvöld.

"Já, það er ég. Við höfum oft spilað betur, en við höfum aldrei fengið fleiri stig fyrir sigur. Við náðum að klára leikinn og það var gott," sagði Ólafur en Víkingar eru nú búnir að vinna tvo leiki í röð í Pepsi-deildinni.

"Eins og ég sagði vorum við ekki að spila vel í dag, en við náðum að landa þessum sigri á karakter. Ég vona að við finnum aftur fjölina okkar, en ég var sáttur með karakterinn í dag.

"Varnarleikurinn var heilt yfir mjög sterkur, en við gerum smá mistök í markinu. Valsmenn eru með gæðaleikmenn sem refsa og þeir gerðu það svo sannarlega í kvöld, en við náðum sem betur fer að svara strax fyrir okkur og klára svo leikinn í lokin."

Ólafur var einnig sáttur með frammistöðu Arons Elísar Þrándarsonar sem skoraði fyrra mark Víkinga í kvöld og lagði upp það síðara.

"Hann komst líka einn í gegn og ef hann hefði verið aðeins fljótari að hlaupa hefði hann sett eitt í viðbót. Við vonum að það komi með betra formi," sagði Ólafur léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×