Enski boltinn

Giggs fetaði í fótspor Hilditich

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ryan Giggs stýrði Manchester United í fyrsta skipti í gær.
Ryan Giggs stýrði Manchester United í fyrsta skipti í gær. Vísir/Getty
Sem kunnugt er stýrði Ryan Giggs Manchester United til 4-0 sigurs á Norwich á Old Trafford í sínum fyrsta leik sem þjálfari liðsins. Giggs var fenginn til að stýra liðinu út leiktíðina eftir að David Moyes var sagt upp störfum síðasta þriðjudag.

Giggs er enn leikmaður United, þótt hann hafi ekki leikið gegn Norwich í gær. Hann er þó ekki sá fyrsti í sögu Manchester United sem gegnir starfi þjálfara samhliða því að leika með liðinu.

Lal Hilditich var spilandi þjálfari hjá United frá 8. október 1926 til 13. apríl 1927, en hann tók við liðinu til bráðabirgða af John Chapman.

Það er þó óhætt að segja að frumraun Giggs í þjálfarastólnum hafi gengið öllu betur en frumraun Hilditich, en United tapaði 4-0 fyrir Bolton á útivelli í fyrsta leik liðsins undir hans stjórn. 

Alls stýrði Hilditich liði Manchester United í 33 leikjum. Tíu þeirra lauk með sigri United, tíu með jafntefli, en 13 leikir töpuðust. Markatalan í þessum leikjum var 38-47. Við starfi Hilditich tók Herbert Bamlett.

Hilditch hélt áfram að spila með Manchester United, en hann var rúm tólf ár í herbúðum félagsins. Hann lék alls 322 leiki fyrir United og skoraði í þeim sjö mörk.


Tengdar fréttir

Giggs þakkaði Moyes

Ryan Giggs hóf sinn fyrsta blaðamannafund sem knattspyrnustjóri Manchester United með því að þakka David Moyes fyrir.

Draumabyrjun Giggs

Ryan Giggs fékk heldur betur óskabyrjun sem stjóri Manchester United, en lið hans bar sigurorð af Norwich með fjórum mörkum gegn engu á Old Trafford í dag.

Brottrekstur Moyes staðfestur

Manchester United hefur staðfest að félagið hafi sagt knattspyrnustjóranum David Moyes upp störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×