Innlent

Rússar verja hagsmuni sína ef í hart fer

Hrund Þórsdóttir skrifar
Staðan í deilu Rússa við Úkraínumenn og vesturveldin er afleiðing af því hvernig kalda stríðinu lauk, að mati prófessors við Bifröst. Hann býst ekki við stríði en segir þó að Rússar muni verja hagsmuni sína ef í hart fari.

Talið er að vel búið 40 þúsund manna herlið Rússa sé nú við landamæri Úkraínu í austri. Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, segir Rússa reyna að tryggja sér hagstæða þróun mála í Úkraínu en býst síður við stríði. „Maður sér að innanlandsumræðan í Rússlandi er miklu krítískari á það sem er að gerast núna varðandi Úkraínu en hún var í sambandi við Krím,“ segir hann.

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafa skorað á Rússa að kalla herliðið frá Úkraínu en sérfræðingar Atlantshafsbandalagsins telja hægt að beita því með um tólf stunda fyrirvara. Atlantshafsbandalagið birti gervihnattamyndir af herliðinu í gær en Rússar hafa í dag ýmist sagt myndirnar gamlar eða haldið því fram að aðeins sé um reglubundna flutninga herliðs að ræða.

Rússar hafa þegar verið beittir refsiaðgerðum en Jón segir Rússa ekki ætla að gefa eftir ítök sín í Úkraínu; þeir muni verja þá ef í hart fari. „En ég myndi samt halda að þetta yrði frekar þessi diplómatíski slagur fram og til baka,“ segir Jón.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir Úkraínumenn hafa dregið að greiða fyrir kaup á rússnesku gasi og er óttast að spennan leiði til skorts á gasi í Evrópu, þar sem margar gasleiðslur Rússa liggja í gegnum Úkraínu. Úkraínumenn hafa því leitað til Frakka og Þjóðverja til að fá gas með aðstoð Bandaríkjamanna, sem segja Rússa nota gasið sem þvingunartæki.

Jón segir stöðuna afleiðingu af því hvernig kalda stríðinu lauk. „Og við sjáum núna á því hvernig Rússar haga sínum málflutningi að margt af því sem er að koma upp á yfirborðið stafar af djúpstæðri óánægju ríkjandi afla í Rússlandi með það hvernig heiminum var skipt upp eftir kalda stríðið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×