Innlent

Alvarleg bilun á Nesjavallaæð - Hætta getur skapast

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hætta getur skapast ef heitt vatn rennur úr æðinni.
Hætta getur skapast ef heitt vatn rennur úr æðinni. vísir/gva
Heitavatnslögnin frá Nesjavöllum til höfuðborgarsvæðisins bilaði seint í gær en samkvæmt Orkuveitunni getur hætta skapast ef heitt vatn rennur úr æðinni og er ferðafólk því varað við.

Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitunni að nú sé búið að loka fyrir lögnina og að leit að biluninni standi yfir. Aðgerðir sem gripið var til í nótt og í morgun eiga að tryggja íbúum nægt heitt vatn en staðan sé viðkvæm. Ferðafólki er bent á að hætta getur skapast vegna heits vatns, sé leki úr lögninni.

Rennsli dregst saman um 80%

„Það var uppúr klukkan átta í gærkvöldi að viðvaranir birtust um það í stjórnstöð Orkuveitunnar að rennsli um Nesjavallaæðina færi hratt minnkandi. Starfsmenn fóru með aðstoð björgunarsveitafólks eftir æðinni að miðlunargeymum á Háhrygg, ofan Nesjavalla.

Í þá er vatni dælt frá virkjuninni en það er sjálfrennandi þaðan að geymum á Reynisvatnsheiði. Engin bilun fannst en rennslið um æðina var einungis um 200 lítrar á sekúndu. Það hafði minnkað úr 1.100 lítrum á sekúndu,“ segir í tilkynningunni.

Nú sé búið að loka fyrir rennsli um æðina og starfsmenn Orkuveitunnar fóru eftir birtingu á vélsleðum eftir lögninni endilangri. Þar hafi þeir ekki komið auga á tjón á henni eða fundið orsök bilunarinnar.

Samkvæmt Orkuveitunni getur hætta skapast ef heitt vatn rennur úr æðinni og er ferðafólk því varað við.

„Þá fara núna um 200 sekúndulítrar á yfirfalli frá heitavatnsgeymunum á Háhrygg. Það vatn rennur í gili niður af hryggnum. Þar getur líka verið varasamt að vera á ferð. Nesjavallavegur, sem er í umsjá Vegagerðarinnar, er lokaður eins og jafnan yfir vetrartímann.“

Uppfært klukkan 14:30

Bilun á Nesjavallaæðinni er enn ekki fundin en nú streymir vatn inn á hana að nýju. Vatnsgeymar á Háhrygg eru að fyllast en töluverða stund tekur að fylla lögnina af vatni. Hún er liðlega 30 kílómetra löng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×