Innlent

„Maður má ekki hafa sjálfstæða skoðun“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Gunnar Þórarinsson er bæjarfulltrúi flokksins í Reykjanesbæ.
Gunnar Þórarinsson er bæjarfulltrúi flokksins í Reykjanesbæ. vísir/stefán
Gunnar Þórarinsson, sem hafnaði í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ, er ósáttur með framgang flokksforystunar í bænum. Gunnar er bæjarfulltrúi flokksins í Reykjanesbæ.

Gunnar fékk ekki að vera í fimmta sætinu sem hann átti að vera í samkvæmt úrslitum prófkjörsins og var boðið það sjöunda sem hann hafnaði. Gunnar, sem sóttist eftir fyrsta sæti til annars sæti listans setur einnig spurningamerki við að allir frambjóðendurnir í prófkjörinu nema einn og formenn allra Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ hafi lýst yfir stuðningi við Árna Sigfússon bæjarstjóra í efsta sætið á listanum.

Gunnar kvartaði undan því að formenn Sjálfstæðisfélaganna hefðu lýst yfir stuðningi við Árna og segir það brjóta gegn reglum flokksins. „Það er óleyfilegt að nota nafn flokksins í prófkjöri og mér finnst formennirnir hafa gert það með þessum hætti,“ segir Gunnar. Með því að lýsa yfir stuðningi við Árna hafi formennirnir notað titil sinn til þess að veita Árna aukið vægi í prófkjörinu.

„Ég hafði samband við fólk upp í Valhöll sem sagði þetta vera ósiðlegt,“ útskýrir Gunnar.

Má ekki hafa sjálfstæða skoðun

Gunnar segir það hafa komið sér mjög á óvart að hann hafi ekki fengið sæti á lista flokksins. Gunnar fékk um þriðjung atkvæða í efsta sæti listans og er sáttur við það, sérstaklega ef mið sé tekið af þeim mikla stuðningi sem Árni Sigfússon fékk frá öðrum frambjóðendum.

„Þetta lýsir nákvæmlega hvað er í gangi þarna hjá flokknum. Maður má ekki hafa sjálfstæða skoðun,“ segir Gunnar.

Gunnar segist ekki vera búinn að gera upp við sig hvað hann gerir í framhaldinu og útilokar ekki að taka þátt í öðru framboði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×