Fótbolti

Ný keppni á að fækka vináttulandsleikjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA, til hægri með Gianni Infantino aðalritara.
Michel Platini, forseti UEFA, til hægri með Gianni Infantino aðalritara. Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, samþykkti á þingi sem haldið var í Kasakstan í vikunni að setja á stofn nýja keppni landsliða sem mun bera nafnið UEFA Nations League.

Í hinni nýju keppni verður landsliðum 54 aðildarsambanda UEFA skipt í fjórar deildir miðað við getu þeirra. Líkt og í hefðbundinni deildakeppni verður keppt um að komast upp í sterkari deild eða forðast fall í lakari deild.

Þá verður keppnin einnig nátengd undankeppnum stórmóta í knattspyrnu en liðum mun gefast tækifæri í henni að keppa um aukasæti í úrslitakeppni EM.

Tilgangurinn með nýju keppninni er að fækka vináttulandsleikjum en fram kemur á heimasíðu UEFA að það sé samdóma álit flestra í knattspyrnuheiminum að vináttulandsleikir séu ekki samanburðarhæfir við alvöru keppnisleiki.

Nákvæm útfærsla á keppninni liggur ekki fyrir en fyrirkomulagið verður mótað á næstu árum í samstarfi við aðildarlönd UEFA.

Lesa má nánar um UEFA Nations League á heimasíðu UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×