Enski boltinn

Liverpool komið á toppinn | Myndband

Liverpool vann öruggan 4-0 sigur á Tottenham á Anfield Road og tyllti sér þar með á topp ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta var áttundi sigur Liverpool í deildinni í röð.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og náði forystunni strax á annarri mínútu þegar Younes Kaboul, sem var fyrirliði Tottenham í dag, skoraði slysalegt sjálfsmark.

Liverpool hélt áfram að þjarma að gestunum og Luis Suarez bætti við marki eftir 25. mínútna leik þegar hann skoraði góðu vinstri fótar skoti framhjá Hugo Lloris í marki Tottenham.

Lloris kom svo í veg fyrir að Liverpool færi með þriggja marka forystu inn í hálfleikinn þegar hann varði frábærlega skalla frá Suarez.

Hafi Tottenham-menn gert sér einhverjar vonir um endurkomu, þá gerði Philippe Coutinho út um þær þegar hann skoraði þriðja mark heimamanna með góðu skoti utan teigs eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik.

Jordan Henderson nelgdi svo síðasta naglann í kistu Spurs þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu, 14 mínútum fyrir leikslok.

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn inni á miðjunni fyrir Tottenham.

Liverpool situr nú í efsta sæti úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á undan Chelsea sem er í öðru sæti. Manchester City situr svo í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir Liverpool, en á tvo leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×