Enski boltinn

Giroud tjáir sig í fyrsta skipti um framhjáhaldið

Giroud fagnar um helgina.
Giroud fagnar um helgina. vísir/getty
Hinn franski framherji Arsenal, Olivier Giroud, hefur verið mikið á milli tannanna á fólki eftir að upp komst um framhjáhald hans á liðshóteli Arsenal daginn fyrir leik gegn Crystal Palace.

Í fyrstu neitaði Giroud öllu en þegar hið sanna komst upp baðst framherjinn auðmjúklega afsökunar á Twitter.

Þetta mótlæti í einkalífinu hefur ekki haft áhrif á Giroud innan vallar en hann skoraði tvö mörk í 4-1 sigri Arsenal á Everton í bikarnum um helgina.

Í kjölfarið tjáði hann sig í fyrsta skipti opinberlega um málið.

"Sumt af því sem var sagt var satt en annað ekki. Þetta er samt allt í fortíðinni. Það sem drepur mig ekki styrkir mig bara. Ég er sannfærður um að þetta mál allt saman muni bara styrkja mig," sagði Giroud sem reynir nú að bjarga hjónabandi sínu.

"Það sem ég þarf að hugsa um núna er að standa mig á vellinum og hugsa um fjölskylduna mína. Þetta hefur verið erfiður tími og þá verða menn að vera sterkir. Ég nota fótboltann til að fá útrás og Wenger hefur hjálpað mér mikið. Ég gat talað við hann. Nú vil ég gleyma þessu öllu og byrja upp á nýtt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×