Innlent

Höfuðborgarsvæðið verði leiðandi í skólamálum á Norðurlöndum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Frá fundinum fyrr í dag.
Frá fundinum fyrr í dag. Vísir/Stefán
Samtök sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu ætla sér að vera leiðandi í skólamálum á Norðurlöndum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem þau sendu frá sér í tilefni blaðamannafundar þar sem sameiginleg framtíðarsýn og aðgerðaráætlun í skólamálum var kynnt.

Í tilkynningunni kemur meðal annars fram að þrjú sveitarfélög hafi lýst yfir áhuga á að taka að sér rekstur framhaldsskóla á sínu svæði. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hvetja til tilraunaverkefna á þessu sviði.

Aðgerðaráætlun samtakana er ítarleg. Samkvæmt henni verður samstarf við Kennarasamband Íslands aukið. Samstarfið á að fela í sér að finna leiðir til þess að auka virðingu fyrir kennarastarfinu, samhliða bættum kjörum kennara og aðbúnaði í skólum.

Einnig á að auka læsi og bæta lesskilning nemenda. Það verður forgangsverkefni og markmiðið að allir nemendur geti lesið sér til gagns í lok þriðja bekkjar.

Sveitarfélögin vilja einnig koma til samstarfs við ríkisvaldið um aðgerðir til að draga úr brottfalli framhaldsskólanema um helming á næstu sjö árum. Talið er að ávinningur af þeirri aðgerð get hlaupið á tugum milljarða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×