Innlent

Hlutfall þeirra sem eru á negldum dekkjum hefur farið minnkandi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Síðustu þrjú ár hefur VÍS kannað ástand dekkja í upphafi hvers árs.
Síðustu þrjú ár hefur VÍS kannað ástand dekkja í upphafi hvers árs. visir/anton
Síðustu þrjú ár hefur VÍS kannað ástand dekkja í upphafi hvers árs á tjónabílum sem koma á tjónaskoðunarstöð félagsins. Kannanirnar þrjár sýna svipaða stöðu hvað varðar sumardekkin, um 12% bíla voru á þeim þó svo að veturinn hafi staðið yfir í nokkra mánuði þegar könnunin var gerð en þetta kemur fram í frétt frá VÍS.

Þar kemur fram að hlutfall þeirra sem eru á negldum dekkjum hefur farið minnkandi. Í upphafi þessa árs voru 17% bíla á negldum dekkjum miðað við um fjórðung árin tvö þar á undan. Þeir sem hafa farið af negldum dekkjum virðast fara yfir á vetrardekk. Hlutfall þeirra hefur aukist en hlutfall heilsársdekkja staðið í stað eða verið í kringum 35%.

Í hverri könnun hafa 100 bílar verið skoðaðir og til að geta borið tjónabíla saman við aðra bíla í umferðinni var í ár gerð könnun á 100 bílum til að hafa samanburðarhóp.

Fram kemur í frétt VÍS að þar hafi eingöngu 2% bílanna verið á sumardekkjum. Hlutfall negldra dekkja var svipað og í könnuninni sem var gerð á tjónabílum í ár en hlutfall vetrardekkja 65% sem er mun hærra en á tjónabílum og hlutfall heilsársdekkja eingöngu 14%.

Einnig var kannað hvort bílarnir væru á fleiri en einni tegund af dekkjum. Árin þrjú á tjónabílum voru 82%-85% bílanna á sömu dekkjunum allan hringinn en í samanburðarhópnum var þetta hlutfall 92%.

Þar sem fleiri en ein tegund var undir var algengast að samstæða væri á milli framdekkja og afturdekkja, þó svo sumir bílar væru á þremur eða jafnvel fjórum mismunandi tegundum dekkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×