Innlent

Fylgi Samfylkingarinnar hríðfellur í Kópavogi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Meirihlutinn heldur velli í Kópavogi í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir Morgunblaðið. Fylgi Samfylkingarinnar hríðfellur og undrast oddviti flokksins mikið fylgi Sjálfstæðismanna eftir harðvítugar deilur innan flokksins á síðustu mánuðum.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi í Kópavogi þá fær Sjálfstæðisflokkurinn rúmlega 42% fylgi. Flokkurinn fengi fimm bæjarfulltrúa ef kosið yrði nú. Flokkurinn fékk rúmlega 30% fylgi í kosningunum árið 2010 og bætir við sig manni. Framsóknarflokkurinn heldur sínum manni og verði það raunin í kosningunum í vor þá kemst Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi þingmaður, inn í bæjarstjórn.

Björt framtíð fær rúm 17% prósent og tvo menn inn. Píratar ná inn einum manni og sömuleiðis Vinstri grænir. Fylgi Samfylkingarinnar hrapar í könnun Félagsvísindastofnunnar. Flokkurinn mælist með 12,5% fylgi og tapar tveimur mönnum. Samfylkingin hlaut 28% í síðustu kosningnum og náði þá inn þremur mönnum.

Lægsta fylgi í áratug

„Þetta er verulegt áhyggjuefni fyrir okkur. Þetta er fylgi sem er langt undir því sem Samfylking hefur verið með, mælst með í raun og veru áratugi. Við erum auðvitað nýkomin fram með lista og höfum ekki kynnt okkar málefni né fólk sem mun taka þátt í kosningabaráttunni. Það auðvitað á eftir að skila sér,“ segir Pétur Hrafn Sigurðsson sem leiðir lista Samfylkingarinnar í kosningum í vor.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins kemur Pétri á óvart. Mikil barátta hefur verið innan Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í vetur sem hefur ratað í fjölmiðla. „Það kemur mér á óvart þetta mikla fylgi sjálfstæðismanna, það verð ég að segja alveg eins og er. Bæði miðað við að mikil átök hafa verið í flokknum hjá þeim og það virðist engin áhrif hafa á fylgið hjá þeim. Ég hef enga trú á að þetta verði niðurstöður kosninganna. Við höfum trú á því að við munum ná markmiðum okkar og ná því fylgi sem Samfylkingin hefur haft í Kópavoginum.“


Tengdar fréttir

Rannveig hættir í stjórnmálum

Rannveig Ásgeirsdóttir, oddviti Y-listans í Kópavogi og formaður bæjarráðs, ætlar að hætta í stjórnmálum þegar þessu kjörtímabili lýkur.

Kannast ekki við pólitískar hnífstungur

Forseti bæjarstjórnar í Kópavogi kannast ekki við að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi sé klofinn. Hún undrast ummæli Margrétar Friðriksdóttir sem sækist eftir að leiða lista flokksins í komandi prófkjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×