Enski boltinn

Tvö frábær mörk á tveimur mínútum - City deildabikarmeistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City tryggði sér enska deildabikarinn með 3-1 sigri á Sunderland í úrslitaleik á Wembley í dag en þetta er í fyrsta sinn í 38 ára sem City-liðið vinnur þessa keppni.

Manchester City vann þarna fyrsta titilinn af fjórum mögulegum á þessu tímabili en lærisveinar Manuel Pellegrini eru ennþá með í hinum þremur keppnunum. Pellegrini er þegar búinn að gera betur á sínu fyrsta tímabili heldur en Roberto Mancini í fyrra.

Sunderland-liðið fékk samt algjöra draumabyrjun í leiknum þegar Fabio Borini, lánsmaður frá Liverpool, kom liðinu í 1-0 eftir aðeins tíu mínútna leik eftir að hafa verið grimmari í boltann en miðverðirnir Vincent Kompany og Demichelis.

Sunderland var 1-0 yfir í hálfleik og átti forystuna skilið eftir mjög flottan hálfleik á móti stjörnuprýddu liði City. Þetta breyttist hinsvegar allt í seinni hálfleiknum og með tveimur stórglæsilegum mörkum.

Leikurinn snérist við á aðeins einni mínútu og 45 sekúndum í byrjun seinni hálfleiksins.

Yaya Toure jafnaði metin með frábæru langskoti af um 30 metra færi en þetta er eitt af flottustu mörkunum sem hafa verið skoruð á nýja Wembley.

Innan við tveimur mínútum síðar var City-liðið komið yfir í leiknum en Samir Nasri skoraði þá með glæsilegu skoti af vítateigslínunni eftir fyrirgjöf frá Aleksandar Kolarov.

Steven Fletcher fékk dauðafæri til að jafna metin í lokin en í stað þess brunaði City-liðið í skyndisókn þar sem að varamaðurinn Jesus Navas innsiglaði sigurinn.

Þetta var skemmtilegur úrslitaleikur þar sem Sunderland stóð sig mjög vel á móti gríðarlega sterku liði Manchester City.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×