Enski boltinn

Annar deildarsigur United í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Phil Jones, Wayne Rooney og Danny Welbeck skoruðu mörk Manchester United sem vann kærkominn 3-0 sigur á West Brom í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Knattspyrnustjórinn David Moyes hefur ekki átt sjö dagana sæla eftir tap United gegn gríska liðinu Olympiakos í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku en lið hans hefur nú unnið tvo deildarleiki í röð.

United er nú með 48 stig í sjötta sæti deildarinnar og heldur í veika von um að ná í eitt af fjórum efstu sætunum í vor og komast þar með í Meistaradeild Evrópu á ný.

Rafael komst nálægt því að koma United yfir þegar skalli hans var varinn í slá. En Jones braut ísinn á 34. mínútu er skalli hans rataði í netið eftir sendingu Robin van Persie úr aukaspyrnu.

Það gekk illa fyrir West Brom að sækja framan af en eftir að United komst yfir náði liðið að setja smá pressu á gestina.

En það var ljóst í hvað stefndi þegar Rooney kom United í 2-0 forystu með skalla af stuttu færi. Welbeck tryggði svo öruggan sigur með skoti í teignum á 82. mínútu.

West Brom er í erfiðri stöðu en liðið hefur ekki unnið leik í deildinni síðan á nýársdag. Knattspyrnustjórinn Pepe Mel þykir valtur í sessi þó svo að hann sé nýkominn til félagsins. West Brom er í sautjánda sæti, einu stigi frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×