Enski boltinn

Hull City í undanúrslit í fyrsta sinn í 84 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vísir/Getty
Hull City tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar með 3-0 sigri á Sunderland á heimavelli.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en Hull fékk þó kjörið tækifæri til að ná forystunni þegar vítaspyrna var dæmd á Sebastian Larsson fyrir að bregða Yannick Sagbo í teignum. Oscar Ustari varði hins vegar slaka spyrnu Sone Aluko.

Hull tryggði sér síðan sigurinn í seinni hálfleik með þremur mörkum á níu mínútna kafla. Curtis Davies skoraði fyrsta markið með skalla eftir aukaspyrnu Toms Huddlestone.

David Meyler bætti svo við marki eftir að hafa stolið boltanum af Lee Cattermole og sá síðarnefndi gerði sig svo aftur sekur um slæm mistök þegar sending hans til baka fór beint á Matty Fryatt sem skoraði þriðja mark heimamanna og gulltryggði sigurinn.

Þetta er sögulegur áfangi fyrir Hull, en 84 ár eru liðin frá því liðið lék síðast í undanúrslitum enska bikarsins. Árið 1930 mætti Hull City, þá í annarri deild, stórliði Arsenal undir stjórn Herberts Chapman. Tvo leiki þurfti til að knýja fram úrslit, en Arsenal vann seinni leikinn 1-0 á Villa Park og tryggði sér svo enska bikarinn með sigri á Huddersfield Town í úrslitaleik á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×