Innlent

Grundfirðingar hvattir til að spara kalda vatnið

Samúel Karl Ólason skrifar
Lækkað hefur í vatnsbóli Grundarfjarðar vegna kulda og dræmrar úrkomu.
Lækkað hefur í vatnsbóli Grundarfjarðar vegna kulda og dræmrar úrkomu. Vísir/Vilhelm

Kaldavatnsskortur er nú í Grundarfirði og eru íbúar hvattir til að fara sparlega með vatnið. Á vef Orkuveitu Reykjavíkur er ástæðan sögð vera lág vatnsstaða í vatnsbóli Grundfirðinga, vegna óvenjulegs tíðarfars.

„Stöðug vöktun er nú á vatnsöfluninni og frekari upplýsingum verður komið til íbúa eftir því sem þær liggja fyrir,“ segir í tilkynningu frá OR. Þá segir að orkuveitan sæki vatn í fjórar borholur við bæinn Grund, en vegna kulda og úrkomuleysis hafi vatnsborðið í holunum lækkað.

Í gær komst svo loft inn á veitukerfið sem varð til þess að vart varð við grugg í vatninu. „Gruggið er ekki hættulegt og vatnið er hæft til neyslu. Starfsfólk Orkuveitunnar hefur meðal annars verið í sambandi við heilbrigðiseftirlit og bæjaryfirvöld vegna málsins.“

„Nú er stöðug vakt á vatnsöfluninni og mun það eftirlit leiða í ljós hvort vatnsbólið er að gefa nægilega vel af sér til að sinna þörfum bæjarbúa og fyrirtækja í bænum. Miðlunartankur er við vatnsbólið og hversu mikið gengur á vatnið í honum í dag veitir upplýsingar um hvort afköst vatnsbólsins eru næg. Á meðan það er ekki alveg ljóst eru íbúar beðnir um að fara sparlega með kalda vatnið. Nánari upplýsingum verður komið til íbúa um leið og þær liggja fyrir, væntanlega í fyrramálið.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.