Enski boltinn

Wenger telur skammtímasjónarmið tilefni félagaskipta Mata

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arsene Wenger og Jose Mourinho.
Arsene Wenger og Jose Mourinho. Vísir/AFP
Arsene Wenger segir að yfirvofandi sala Chelsea á Juan Mata sé í þeim tilgangi að styrkja stöðu Manchester United í leikjum gegn keppinautum Lundúnaliðsins.

Chelsea vann 3-1 sigur á Manchester United í leik liðanna á sunnudaginn. Liðin höfðu áður gert markalaust jafntefli á Old Trafford í ágúst og hafa því þegar mæst í báðum leikjum liðanna á leiktíðinni.

United á enn eftir að mæta Arsenal og Manchester City í síðari viðureignum liðanna en liðin eiga í hörkukeppni við Chelsea í toppsætum úrvalsdeildarinnar.

„Félagaskiptin koma mér á óvart enda Mata frábær leikmaður og verið að selja leikmann til keppinauta,“ segir Wenger. Hann bendir á að Chelsea hefði getað selt Mata til United fyrir viðureign liðanna á Stamford Bridge en það hafi félagið hins vegar ekki gert.

Wenger segir það galla á reglum um félagaskipti að hægt sé að tímasetja þau líkt og hann telur Chelsea hafa gert í þessu tilfelli. Hann segir að skammtímasjónarmið Chelsea um árangur á yfirstandandi tímabili gæti komið í bakið á félaginu. Manchester United sé risi þótt liðið sé í dvala.

„Ég lít ekki sömu augum á Manchester United og þú,“ sagði Wenger við spurningu blaðamanns á fundi í gær.

„Þetta er stuttur tími í sögu félagsins og ég tel félagið ekki í hnignun. Þetta getur komið fyrir öll félög en þeir munu rísa úr öskunni, ekki hafa neinar áhyggjur af því.“

Arsenal mætir Coventry í enska bikarnum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×