Enski boltinn

Eto'o með þrennu í öruggum sigri Chelsea

Samuel Eto'o, framherji Chelsea varð í dag aðeins fjórði leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að skora þrennu gegn Manchester United í 3-1 sigri á Stamford Bridge í dag.

Samuel Eto'o náði forskotinu fyrir Chelsea um miðbik fyrri hálfleiks þegar skot hans fór af Michael Carrick og í bláhornið framhjá David De Gea.

Eto'o var var aftur á ferðinni rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar varnarlína Manchester United var sofandi á verðinum. Gary Cahill fékk þá sendingu inn fyrir vörn rauðu djöflanna og renndi boltanum fyrir Eto'o sem átti ekki í vandræðum að skora einn gegn De Gea.

Eto'o gerði út um leikinn með þriðja marki sínu og þriðja marki Chelsea í upphafi seinni hálfleiks. Slök dekkning í teignum gaf Gary Cahill gott skallafæri í vítateig Manchester United, þrátt fyrir að De Gea hafi náð að verja boltann var Eto'o fyrstur að frákastinu og potaði boltanum í autt netið.

Javier Hernandez klóraði í bakkann fyrir gestina þegar korter var til leiksloka þegar hann stýrði skoti Phil Jones í netið. Þetta var aðeins annað mark Hernandez á tímabilinu en síðasta mark hans kom gegn Stoke fyrir tæplega þremur mánuðum.

Nemanja Vidic kórónaði lélegan leik sinn með því að næla sér í beint rautt spjald í uppbótartíma fyrir ljóta tæklingu á Eden Hazard. Litur spjaldsins var umdeilanlegur en Vidic gerði litla tilraun til að ná boltanum í brotinu og var um pirringsbrot að ræða.

Eto'o varð í dag fjórði leikmaðurinn sem skoraði þrennu gegn Manchester United síðan enska úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992 á eftir David Bentley, Dirk Kuyt og Romelu Lukaku.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×